Takk fyrir…

Heilsumolar_Gaua_7juni

Heilsuna. Konuna. Börnin. Fjölskylduna. Ættingjana. Vinina. Kunningjana. Nágrannana. Æfingafélagana. Samstarfsfélagana. Keppinautana. Liðsfélagana. Þjálfarana. Aftureldingu. Fylki. Þrótt. ÍR (í körfu). Sjálfboðaliðana. Landsliðin okkar. Sigurleikinn í Amsterdam. HM í Rússlandi. Miðana á Argentínuleikinn – þú veist hver þú ert, meistari. Lars og Heimi. Fólk sem er opið fyrir hugmyndum og óhefðbundnum leiðum. Náttúruna. Mosfellsbæ. Strandir. Ísland. Ferðalög. Fluginnritun á netinu. Ódýr fargjöld. Booking.com. Frelsi. „Þetta reddast“ genið okkar. Þor og kjark. Hið góða í fólki. Traust sem aðrir sýna manni.

Ég er í flugvél á leið í stutta ferð til Stokkhólms. Skrifa þennan stutta pistil um borð. Ég hef áður skrifað um þakklæti, en það er svo sterk og mikilvæg tilfinning að það er aldrei of oft á hana minnst. Þakklæti kemur manni í gott skap, góðan fíling. Núllar út þörfina fyrir að koma auga á hið neikvæða, það sem maður getur kvartað yfir. Ég nota þakklæti mikið til þess að koma mér í rétt hugarástand.

Það er ekki flókið að vera þakklátur. Maður þarf bara að einbeita sér aðeins. Gefa sér nokkrar mínútur í að skanna lífið og leyfa svo öllu því sem maður er þakklátur fyrir að streyma til sín. Ég ákvað í morgun þegar ég var eldsnemma á leiðinni út á flugvöll að skipta yfir í þakklætisgírinn í stað þess að hugsa alltof langt fram í tímann um allt það sem ég þyrfti að muna, skipuleggja og framkvæma. Ég á það til að fara aðeins of langt fram úr mér í því. Gleyma augnablikinu.

Fyrir utan það sem ég nefndi hér að ofan er ég afar þakklátur fyrir Gulrótina sem við Vala fengum afhenda á dögunum. Gulrótin er lýðheilsuviðurkenning Mosfellsbæjar fyrir heilsueflingarstarf. Við erum þakklát fyrir viðurkenninguna, stolt af henni og tökum henni sem hvatningu fyrir okkur til þess að halda áfram á sömu braut og gera betur. Takk!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 7. júní 2018