Takk fyrir mig en…

Ragnheiður Ríkharðsdóttir

Ragnheiður Ríkharðsdóttir

Þegar ákvarðanir eru teknar liggur oftar en ekki þar að baki ígrunduð hugsun og í mínu tilfelli var það svo.
Ég tók þá ákvörðun í samtali við fjölskyldu mín að hætta í pólitík þegar kjörtímabilinu 2013 -2017 lyki en nú lýkur því fyrr en áætlað var og boðað hefur verið til kosninga þann 29. október n.k.

Við ykkur, kæru sveitungar, vil ég segja, að það hefur verið ótrúlega skemmtilegt og gefandi að hafa fengið tækifæri að starfa sem bæjarfulltrúi og bæjarstjóri í Mosfellsbæ og síðan sem alþingismaður í Suðvestur­kjördæmi.
Mig langar á þessum tímamótum að þakka öllum hér í minni heimabyggð fyrir­ hvatningu og stuðning, fyrir mörg og skemmtileg samtöl sem ég hef átt við ykkur um ólík mál, við ekki alltaf endilega sammála en skilið vonandi þokkalega sátt. Ég hef svo sannarlega notið þess að vera í samfélagsþjónustu sem ég tel að starf bæjarfulltrúa og alþingsmanna sé í raun og veru.

Þúsund þakkir fyrir mig en mig langar líka á þessum tímamótum mínum að minna á að Bryndís Haraldsdóttir gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir Alþingiskosningar þann 29. október­ n.k. og ég hvet ykkur til að veita henni stuðning. Bryndís er heiðarleg, réttsýn, vinnusöm og hún mun verða verðugur fulltrúi okkar á vettvangi Alþingis.
Bestu kveðjur og enn og aftur þúsund þakkir fyrir mig.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir