Sumarpistill

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Það er allt að gerast þegar þessi pistill er skrifaður. Axl Rose var rétt í þessu að taka að sér söngvarahlutverkið í AC/DC og Ólafur Ragnar er búinn að boða blaðamannafund seinna í dag, örugglega til að bjóða okkur að vera forsetinn okkar áfram. Axl og ÓRG eiga það sameiginlegt að fara sínar eigin leiðir og vera frábærir sviðsmenn. Þeir hafa báðir náð miklum árangri og þegar þeir opna munninn þá hlustar fólk. Ég veit ekki hvort þeir þekkjast, en er viss um að ef þeir hittust myndu þeir finna ýmislegt að spjalla um. Sviðsframkomu og hlýnun jarðar til dæmis. Og hvað hvað hafa þeir félagar með sumarið að gera? Alveg heilan helling.

Sumarið er tíminn! Tíminn til að láta vaða, gera það sem mann langar til. Láta hluti gerast. Ekki pæla í hvað öðrum finnst, fólk hefur svo margar og mismunandi skoðanir á hlutunum að maður gerði ekkert annað en að snúast í hringi ef maður ætlaði að fara eftir öllu því sem aðrir vilja að maður geri. Ef þig langar að bjóða þig fram í forsetann, syngja á sviði með AC/DC, labba berfættur upp á Reykjafell, skrá þig í Hvíta Riddarann, ferðast á mótorhjóli um landið eða klifra í trjám fyrir sólarupprás, láttu vaða. Ekki láta okkur hin stoppa þig.

Ég er sjálfur mjög spenntur fyrir íslenska sumrinu, ætla að fá sem mest út úr því. Ég ætla að ferðast með mínu fólki, labba á fjöll, synda í ám og sjó, grilla silung sem ég hef sjálfur veitt með berum höndum, sjá fótboltaliðin mín sigra leiki í sól og blíðu, æfa utandyra, slá gras, rækta jarðarber, laga tröppurnar, byggja pall og skýli. Hugsanlega eitthvað fleira. Toppurinn væri svo að fara á tónleika í Álafosskvosinni og sjá Axl Rose á sviði. Hilmar, getur þú ekki gengið í það mál?

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 20. apríl 2016