Styrkur í sóttkví

Ég er ekki í sóttkví og býst ekkert sérstaklega við því að þurfa fara í sóttkví, er ekki búinn að vera á einu af skilgreindu svæðunum. En kannski kemur að því að ég smitist og þurfi að fara í sóttkví. Ef svo, þá mun ég taka því af sömu yfirvegun og ég reikna að langflestir aðrir geri. Eins og Víðir Reynis sagði í einu viðtalinu: „Taktu bara þátt í þessu. Þetta eru fjórtán dagar. Það er bara þinn skammtur til samfélagsins í dag.“ Hitti þar naglann á höfuðið. Við erum í þessu saman. Öll.

En hvað gerir maður í sóttkví fyrir utan að lúslesa í rauntíma ferskar fréttir á fótbolti.net og horfa á Netflix? Jú, maður nýtir tímann til þess að styrkja sig. Líkamlega og andlega. Andlega með því til dæmis með því að hugleiða, velta fyrir sér tilgangi lífsins og hvernig maður geti látið gott af sér leiða – gert samfélagið betra.

Með líkamsræktina þá gilda engar afsakanir. Það er ekki hægt að kvarta yfir tímaleysi í sóttkví. Það er hugsanlega hægt að reyna að fela sig á bak við þá afsökun að maður komist ekki í tæki, lóð eða ketilbjöllur, en sú afsökun er ekki tekin gild. Maður hefur enn eigin líkama, hann er ekki frekar en hugurinn tekinn frá manni í sóttkví, og getur notað hann til þess að styrkja sig og efla.

Ég mæli með eftirfarandi sóttkvístyrktaræfingum: Hnébeygjum, afturstigi, réttstöðulyftu á öðrum fæti, kálfalyftum, armbeygjum, upphífingum eða róðri í böndum – hér er líka hægt að nota handklæði, lak eða annað sem er hægt að festa í hurð, planka og hliðarplanka. 30 sek af hverri æfingu, allt framkvæmt rólega og yfirvegað, hver æfing á eftir annarri. Þrjár umferðir. Alla daga. Hita upp áður og teygja á eftir. Skothelt styrktarprógram sem skilar þér sterkari úr sóttkvínni.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 12. mars 2020