Sterkar konur

Mér finnst vænlegast til árangurs að breyta hlutum með því að vinna að umbótum með mismunandi leiðum. Þannig geta fleiri nýtt styrkleika sína og tekið þátt í umbótunum. Heilbrigðiskerfið er gott dæmi. Tækninýjungar, framfarir í læknavísindum og betra skipulag í þjónustunni eru nokkur dæmi um hvernig við getum gert kerfið okkar betra. Skipulagið við bólusetningarnar í Laugardalshöllinni er mjög gott dæmi um hverju er hægt að áorka með þaulhugsuðu skipulagi.

En við getum líka bætt heilbrigðiskerfið með því að passa betur upp á okkar eigin heilsu. Því heilsuhraustari sem við erum, því minni þörf höfum við fyrir þjónustuna og því minna verður álagið á kerfið. Þarna finnst mér ég geta gert gagn og reyni því að einbeita mér að því að efla heilsu þeirra sem eru í kringum mig.

Metoo bylgjan sem fór á stað í síðustu viku hefur haft sterk áhrif á mig. Mér finnst erfitt að lesa allar frásagnirnar og finn til með þeim konum sem stíga fram og segja sína sögu. Ég hélt við værum komin lengra í þessu ferli sem samfélag. Mér finnst mikilvægt að við tökum öll þátt í að breyta þessu og eins og með heilbrigðiskerfið, reynum að finna hvar og hvernig við getum gert mest gagn. Nýtt okkar styrkleika, pælt í því „hvað ég get gert“ og svo látið verkin tala.

Fyrir utan að gera mitt besta til að reyna að vera góð fyrirmynd fyrir syni mína, finnst mér ég gera mest gagn á þessu sviði með því að halda áfram að byggja upp hópa þar sem konur og karlar æfa saman. Í okkar litla styrktaræfingaklúbbi er kona yfirþjálfari og þjálfaralistinn telur svipað margar konur og karla. Líklega fleiri konur í dag. Í æfingahópnum eru bæði konur og karlar, langflestir tímar eru kynjablandaðir. Útkoman – gagnkvæm virðing, jákvæð samskipti, sterkar konur og karlar.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 13. maí 2021