Starfrækja sjónvarpsstöð á Facebook

Róbert Douglas og Gestur Valur.

Róbert Douglas og Gestur Valur.

MosTV er sjálfstætt starfandi vefsjónvarpsstöð sem starfrækt er á Facebook. Það eru Mosfellingarnir Gestur Valur Svansson og Róbert Ingi Douglas sem standa á bak við MosTV.
„Við erum báðir Mosfellingar og þekkjum bæinn okkar eins og handarbakið á okkur og brennum af ástríðu fyrir því að vekja athygli á því mikla lífi og fjöri sem er í gangi í Mosó. Við einbeitum okkur að því að segja frá öllu því skemmtilegasta og áhugaverðasta sem er að gerast í þessu ótrúlega líflega bæjarfélagi okkar. Og þar er sko af nógu að taka,“ segir Gestur.

Viljum vekja athygli á bænum okkar
„Ég er náttúrlega með sjúklegan áhuga á kvikmyndagerð eins og margir Mosfellingar vita. Ég byrjaði með MosTv en svo hefur þetta legið í dvala í um það bil ár. En þegar Róbert Douglas, einn af týndu sonum Mosó, kom heim frá Kína ákváðum við að blása lífi í þetta.
Þótt ég sé alveg góður þá munar rosalega um að fá mann eins og Róbert inn í þetta. Mann sem hefur gert nokkrar bíómyndir í fullri lengd og kann vel til verka í tökum og klippingum. Við erum „team“ en fyrst og fremst strákar úr Mosó sem elskum bæinn okkar og viljum vekja athygli á honum.“

Segja sögur af fólki
„Við reynum að höfða til allra Mosfellinga og þá skiptir engu hvort þeir eru ungir eða gamlir, rótgrónir eða nýbúar. Það er hins vegar okkar trú að Mosó sé svo skemmtilegt bæjarfélag og mikið líf hérna að MosTV höfði í raun til allra.
Það er okkar einlæga von að með því að vekja athygli á lífinu í bænum muni fleiri kveikja á því að Mosó er staður sem allir verða að kynnast betur.
MosTV er þess vegna fyrir alla. Við segjum sögur af fólki sem er að skapa og skemmta sér,“ segir Gestur að lokum og bætir við að allar ábendingar um áhugaverð málefni séu vel þegnar.

Hér er að finna Facebook-síðu MosTV