Sprotafyrirtækið IceWind framleiðir stormskýli

Stormskýli við Hörpu gæti litið einhvernvegin svona út.

Stormskýli við Hörpu gæti litið einhvernvegin svona út.

Mosfellska sprotafyrirtækið IceWind tekur þessa dagana þátt í frumkvöðlaþáttum á RÚV sem nefnast Toppstöðin. Átta hópar taka þátt og vinna undir leiðsögn sérfræðinga. Um 140 verkefni sóttu um þátttöku en einungis átta komust áfram.
IceWind var stofnað árið 2012 með það að markmiði að þróa og koma á markað samkeppnishæfum og endingargóðum vindtúrbínum. „Við erum mjög ánægðir með að fá tækifæri til að taka þátt í þessu verkefni,“ segir Sæþór Ásgeirsson vélaverkfræðingur. Auk hans eru það Gunnar Eiríksson rennismíðameistari og Þór E. Bachmann viðskiptafræðingur sem standa að fyrirtækinu en allir tengjast þeir Mosfellsbæ.

Sjálfbært strætóskýli við Hörpu
„Við erum með samfélagslegt verkefni þar sem við ætlum að setja tvær litlar vindtúrbínur á stætóskýli fyrir framan Hörpuna. Túrbínurnar munu sjá um alla orkuþörf skýlisins, lýsingu, auglýsingaskjá o.þ.h. Hægt verður að hlaða farsímann í skýlinu og fara frítt á netið.
Hrint hefur verið af stað hópfjármögnun á Karolina Fund til að fjármagna þetta verkefni og stendur söfnunin yfir í þrjár vikur. Við ætlum að einbeita okkur að fyrirtækjum þar sem seldar verða auglýsingar á annars vegar túrbínublöðin sjálf og hins vegar á stafrænan auglýsingaskjá. Auðvitað er almenningi líka velkomið að styrkja okkur,“ segir Sæþór.
Ýmsar styrktarleiðir eru í boði og þeim sem vilja kynna sér það er bent á www.icewind.is eða www.karolinafund.com.

Lokaþátturinn í beinni útsendingu
Lokaþáttur Toppstöðvarinnar fer fram í beinni útsendingu þann 5. nóvember og þá er það almenningur sem velur sigurvegara í símakosningu. „Við gerum ráð fyrir mikilli samkeppni og þurfum á öllum hugsanlegum stuðningi að halda. Þetta kvöld hafa dómararnir ekkert vægi, aðeins símakosningin og við þurfum að stóla á að þjóðin kjósi okkur,“ segir Sæþór og hvetur Mosfellinga sérstaklega til að standa við bakið á þeim.
„Við fjármögnum einnig fyrirtækið okkar IceWind og erum búnir að opna fyrir örfjárfesta, þar sem almenningur getur fjárfest og fengið hlut í fyrirtækinu. En framtíðarhorfur fyrirtækisins einskorðast ekki eingöngu við vindtúrbínur heldur stefnir fyrirtækið á að stækka með nýjum hugmyndum og vörum. Fyrirtækið stefnir á að vera leiðandi í grænni orku á Íslandi auk þess að vera með starfsemi á heimsvísu,“ segir Sæþór að lokum.

Icewind hefur sett af stað söfnun á Karolina Fund. Hér er hægt að leggja verkefninu lið.