Skólastarf, viðhald og það sem ekki fæst keypt

Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir

Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir

Þeir sem fylgdust með kosningum sl. vor tóku kannski eftir því að mikið var ritað og rætt um skólana okkar og þá sérstaklega Varmárskóla.
Það hafa allir skoðanir á skólum, skólastjórum og kennurum enda varðar skólinn allar fjölskyldur. Mörg orð vorum látin falla og stundum efast ég um að þau orð hafi verið öll til gagns. Ég veit þó að allir höfðu það markmið að leiðarljósi að bæta skólana okkar. Allir vilja bæta skólasamfélagið og lífið heldur áfram.
Nýtt skólaár er að hefja göngu sína og á ég fáar óskir heitari en þær að allt gangi vel og öllum líði vel. Sem formaður fræðslunefndar mun ég leggja mig alla fram við að styðja við skólasamfélagið í Mosfellsbæ af heilum hug.

Aukið fjármagn í innra starf og húskroppa
Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ hafa ávallt haft skólamálin í forgangi enda er þetta stærsti og mikilvægasti málaflokkurinn okkar. Sannarlega hefur íbúum í Mosfellsbæ fjölgað mikið á síðustu árum enda veit fólk að það er gott að ala upp börn í Mosfellsbæ. Við gerð fjárhagsáætlunar undanfarinna ára hefur fjármagn til skólanna verið aukið til muna. Það var gert um leið og fjárhagur vænkaðist.
Öll sveitarfélög eru að auka fjármagn til sinna skóla hvort sem það er í skólastarfið sjálft eða í húskroppana. Hvort tveggja þarf að vera í lagi. Í kjölfar kjarasamninga kennara var settur á laggirnar rýnihópur úr hópi kennara sem skrifaði lista um hvað vantaði og hvað þyrfti að bæta svo skólastarfið gengi betur. Sá listi fór inn í fjárhagsáætlun og er nú unnið samkvæmt listanum til að mæta óskum kennara.

Viðhald á skólunum
Allt viðhald á skólunum og öðrum stofnunum Mosfellsbæjar er í umsjón umhverfissviðs. Þar eru gerðar áætlanir um viðhald og viðgerðir undir vökulum augum sérfræðinga. Komi upp grunur hjá stjórnendum stofnana um skemmdir á skólahúsnæði þá fara málin í ákveðið ferli og húsnæðið lagað.
Grunur kom upp um rakaskemmdir í Varmárskóla og var í kjölfarið gerð úttekt á húsnæðinu af sérhæfðri verkfræðistofu og í kjölfarið farið í lagfæringar á húsnæðinu. Viðhald og endurbætur á húsnæði bæjarins er verkefni sem sífellt er í gangi.

Það mikilvægasta
Að lokum langar mig að nefna það sem hvorki fæst keypt né lagað af sérfræðingum í viðhaldi bygginga en það eru samskiptin, umhyggjan, þolinmæðin, umburðarlyndið og gagnkvæm virðing. Jafnvel í fullkomnum heimi þar sem til væri nóg af peningum og allt til alls, ef þetta vantaði væri skólastarfið farið fyrir lítið.
Ég veit sem kennari til margra ára að kennarastarfið er ekki auðvelt og oft reynir á í samskiptum við nemendur og foreldra. Það er markmið okkar sem komum að skólamálum í Mosfellsbæ að styðja við skólamenninguna svo öllu starfsfólki, kennurum og nemendum líði vel í sátt og samlyndi hvert við annað. Þannig eiga skólarnir okkar að vera og þannig náum við árangri saman.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
formaður fræðslunefndar