Sigrún valin Mosfellingur ársins


sigrunmosfellingur

mosfellingurarsinsSigrún Þ. Geirsdótti hefur verið valin Mosfellingur ársins 2015. Bæjarblaðið Mosfellingur stendur fyrir valinu en Sigrún er sú ellefta til að hljóta titilinn.
Sigrún vann það þrekvirki á árinu 2015 að synda fyrst íslenskra kvenna yfir Ermarsundið. Sigrún sem hefur stundað sjósund undanfarin ár og hafði áður synt boðsund í tvígang yfir Ermarsundið sem varð kveikjan að því að hana langaði að gera þetta ein.
Ermarsundið er stundum kallað „Mount Everest sundmanna,“ en að synda yfir sundið er eitt og sér mikið afrek, en þrekvirki Sigrúnar verður líklega seint leikið eftir. Bakgrunnur Sigrúnar í íþróttum er enginn og lærði hún skriðsund fyrir þremur árum síðan. Þetta afrek hennar er því ótrúlegt.

Ótrúlegur heiður
„Þetta er æðislegt, ég var tilnefnd sem maður ársins af ýmsum fjölmiðlum en það er ótrúlegur heiður að hljóta nafnbótina Mosfellingur ársins, það er svakalega skemmtilegt,“ segir Sigrún og bætir við að hún sé alltaf endurnærð þegar hún komi upp úr sjónum, skilji áreiti og áhyggjur eftir og finni fyrir meiri jarðtengingu.
„Þegar ég ákvað að fara í þetta sund átti ég ekki von á allri þessari athygli, ég er nú frekar feimin og því er þetta bæði gaman og erfitt. Þetta var ótrúlegt ævintýri og ég er mjög stolt af sjálfri mér að hafa klárað sundið og ekki gefist upp þrátt fyrir mikið mótlæti á leiðinni.“

Samsvarar 1.254 ferðum í Lágafellslaug
Vegalengdin beint yfir sundið er 33 km en ég synti 62,7 km á 22 klukkustundum og 34 mínútum.
„Ég byrjaði vel en eftir rúmlega þrjá klukkutíma varð ég sjóveik og kastaði upp eftir hverja matargjöf í sjö tíma. Þegar ég var búin að synda í 10 klukkutíma komst ég þó yfir sjóveikina, þá var brugðið á það ráð að gefa mér súkkulaði, kók og Jelly Babies að borða. Það er líklega einsdæmi að einhver hafi synt yfir Ermarsundið á þessu fæði.“
Vegalengdin sem Sigrún synti samsvarar 1.254 ferðum fram og til baka í Lágafells­laug og það í gríðarlega miklum straumum, öldum og að hluta til í svarta myrkri.

Snýst um rétta hugarfarið
Sund Sigrúnar hefur vakið mikla athygli. „Ég hef haldið þónokkra fyrirlestra og mér finnst það voða skemmtilegt. Ég fjalla þá um undir­búninginn en hann er rosalega mikilvægur, bæði æfingarnar og ekki síst hugarfarið.
Ég segi frá lífi mínu áður en ég byrjaði að stunda sjósund og þá aðalega heilsufarslega. Sýni svo myndband af sundinu en fólk gerir sér ekki alveg grein fyrir því hvað þetta er fyrr en það sér myndbandið og verður svolítið slegið þegar það sér myrkrið, öldurnar og líkamlegt og andlegt ástand mitt,“ segir Sigrún að lokum.