Samgönguvika í Mosfellsbæ 16 – 22. september

Tómas G. Gíslason

Tómas G. Gíslason

Dagana 16. – 22. september mun Mosfellsbær taka þátt í Evrópsku Samgönguvikunni, European Mobility Week.
Tilgangur samgönguvikunnar er að vekja athygli á vistvænum samgöngum og hvetja almenning til að nýta sér almenningssamgöngur, hjólreiðar og aðra vistvæna fararkosti.
Mosfellsbær hefur verið virkur þátttakandi í samgönguvikunni undanfarin ár og staðið fyrir margs konar viðburðum í tilefni vikunnar, bæði í Mosfellsbæ og víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við nágrannasveitarfélögin.
Mosfellsbæ vill vekja sérstaklega athygli á tveimur viðburðum í Mosfellsbæ í samgönguvikunni.

Hjólreiðaráðstefna í Hlégarði
Mosfellsbær mun í ár hýsa stóra hjólreiðaráðstefnu, „Hjólum til framtíðar“ þar sem áhersla verður sett á hjólreiðar í náttúrunni. Ráðstefnan verður haldin í Hlégarði föstudaginn 16. september kl. 10-16. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á heimasíðu Landsamtaka hjólreiðamanna, www.lhm.is og þar er hægt að skrá sig til þátttöku.
Fyrir ráðstefnuna verður boðið upp á hjólreiðaferð frá Elliðaárvogi (við hjólabrýr) til Mosfellsbæjar þar sem m.a. verður hjólað á nýja samgöngustígnum undir Úlfarsfelli. Lagt verður af stað kl. 9 frá Elliðaánum og kl. 9:20 frá bílastæðinu við Bauhaus fyrir þá sem vilja slást í hópinn.

Ný hjólahreystibraut á miðbæjartorgi
Mosfellsbær í samvinnu við LexGames munu setja upp nýja hjólahreystibraut, Pump track braut, á miðbæjartorginu á meðan á samgönguvikunni stendur. Brautin hentar jafnt BMX hjólum, reiðhjólum, hlaupahjólum, hjólabrettum og línuskautum. Að samgönguvikunni lokinni verður brautin flutt á sinn varanalega stað við litla gervigrasvöllinn við íþróttamiðstöðina við Varmá.

Af öðrum viðburðum má nefna að BMX landsliðið kemur í heimsókn og sýnir listir sínar á miðbæjartorginu, Dr. Bæk mætir í bæinn og aðstoðar við reiðhjólastillingar og Bíllausi dagurinn er mánudaginn 22. september, en þá er almenningur í Mosfellsbæ hvattur til að skilja bílinn eftir heima og nýta sér aðra samgöngumáta.
Mosfellsbær mun í tilefni vikunnar einnig vekja athygli á göngu- og hjólastígakortum bæjarins og gera þau aðgengileg á heimasíðunni og á helstu þjónustustöðum í bænum, auk þess sem skólarnir í Mosfellsbæ og forsvarsmenn skólabarna eru hvattir til að taka virkan þátt í samgönguvikunni með því að skilja bílinn eftir heima.
Ég hvet alla Mosfellinga til að taka þátt í þessu árlega átaki, draga fram hjólið og njóta góðrar útiveru og heilsusamlegrar hreyfingar.
Frekari upplýsingar um Evrópsku Samgönguvikuna og ítarlegri dagskrá má finna á heimsíðu Mosfellsbæjar, www.mos.is/samgonguvika og á facebooksíðu Samgönguvikunnar.

Tómas G. Gíslason
umhverfisstjóri Mosfellsbæjar