Formaður FaMos spyr: Erum við á réttri leið?

mosfellingur_hopmynd_img_7242_00

Harald S. Holsvik

Harald S. Holsvik

Við í FaMos gerðum garðinn frægan og fórum í góða skemmtiferð til Tíról í Austurríki dagana 20.-27. september sl.
Ferðin heppnaðist að öllu leyti mjög vel og varð Ferðanefnd FaMos og Bændaferðum ásamt fararstjóra til virkilegs sóma.

Við höfum haldið, það sem af er á þessum vetri, tvö menningar- og skemmtikvöld. Fyrra kvöldið var í Hlégarði þann 10. okt. sl. Skemmtikraftar voru ekki af verri endanum en það voru þeir félagar Grétar Örvarsson, með hljómborð og Hans Þór Jensson á saxafón. Þeir fóru létt með að taka hin ýmsu gömlu og góðu dægurlög og „standarda“. Grétar söng einnig og lék við hvern sinn fingur.

Seinna menningar- og skemmtikvöld FaMos var svo haldið í Hlégarði 14. nóv. sl. Þá byrjaði undirritaður á myndasýningu úr Tíról ferðinni. Þar næst kom Greta Salóme Stefánsdóttir, okkar snjalli bæjarlistamaður, hún lék við hvern sinn fingur og af fingrum fram á fiðluna við mikla ánægju og góðar undirtektir FaMos félaga.

Næsta menningar- og skemmtikvöld FaMos verður haldið í Hlégarði þann 12. des. n.k. Þá verður heldur betur „allt í stuði“ með Vorboðunum, kór eldri borgara í Mosfellsbæ sem koma til okkar og syngja jólalögin inn í hjörtu okkar fyrir hátíðarnar. Kaffinefnd FaMos sér svo um hið rómaða kaffihlaðborðið eins og venjulega. Komugjald við inngang er aðeins 1.000 kr. seðill.

En hvað er að gerast á Eirhömrum?
Félagsstarfið sér um allt skipulag og niðurröðun námskeiða og viðburða. Er það allt í góðri samvinnu við FaMos. Starfið þar er fjölbreytt, spilað á spil, Gaman saman o.fl. og virðist gagnast mörgum. Þeir sem ekki eru með rafpóst, geta ævinlega litið við á Eirhömrum og séð viðburðadagskrár á auglýsingatöflunum.

Eftir áramót stendur til að byrja Þjóðsagnanámskeið (sjá nánar auglýsingu hér í blaðinu). Ánægjulegt væri að fá viðbrögð og að sjá hugsanlegan áhuga á skákíþróttinni. En við erum alltaf tilbúin til að bæta við áhugaverðum viðfangsefnum.
Einnig hefur staðið til að endurvekja áhuga fyrir spjaldtölvunámi eða námskeiðum en allt þetta fer eftir þátttöku. Því fleiri sem skrá sig því betra en skráningarblöð eru yfirleitt í hannyrðastofu að Eirhömrum. Einnig er hægt að skrá sig í síma hjá Félagsstarfinu. Ef nægur fjöldi þátttakenda er til staðar aukast líkur á að viðkomandi námskeið fari af stað.

Megi aðventan leiða okkur öll inn í jólahátíðina með tilkomu gleðilegra daga og friðar á jörð.
Innilegar jólakveðjur frá stjórn FaMos.

Harald S. Holsvik, form.