Pólitísk afskipti Varmárskóla af kosningabaráttunni

Sigrún Pálsdóttir

Sigrún Pálsdóttir

Þann 24. maí síðastliðinn birtist færsla á Facebook-síðu Varmárskóla þess efnis að ónafngreindir aðilar væru að vega að skólastarfinu og var sami texti settur á vef skólans daginn eftir.
Af samhengi og efni pósta í kjölfarið og gagnrýni sem fram kom á opnum íbúafundi í Hlégarði 24. maí var engum blöðum um það að fletta við hverja var átt, þ.e. frambjóðendur Í-lista. Færslunni í nafni skólans var dreift víða um netið og voru kjósendur m.a. hvattir til að kjósa listann ekki.
Nú er Varmárskóli opinber stofnun sem rekin er af Mosfellsbæ. Hann er stærsta uppeldisstofnun sveitarfélagsins og einn af stærstu skólum landsins. Færslan á samskiptasíðunni birtist tveimur sólarhringum fyrir kosningar. Sú tímasetning er ekki tilviljun.

Afskipti D-lista
Það sem gerir málið alvarlegra en ella er að skólayfirvöld í Mosfellsbæ lögðu blessun sína yfir færsluna með því að taka undir hana, þ.e. núverandi og fyrrverandi formenn fræðslunefndar, Kolbrún Þorsteinsdóttir og Hafsteinn Pálsson frambjóðendur D-lista. Bæði voru í framboði og má líta svo á að þessi aðför hafi því hentað þeim persónulega.
Ef marka má tilsvör bæjarstjóra og formanns fræðslunefndar í umræðum um málið á fundi bæjarstjórnar nr. 718 þótti fulltrúum D-lista ekkert tiltökumál að stofnanir sveitarfélagsins væru notaðar til að hafa áhrif á niðurstöður kosninga. Bæjarstjóri sagðist hafa heyrt „kjaftasögur“ og formaður fræðslunefndar talaði um „ótrúlegar tröllasögur“. Engin svör fengust þó við því um hvað þær fjölluðu, hverjir sögumennirnir voru eða hvernig opinberri stofnun datt yfirleitt í hug að færa sér ósómann í nyt til að skaða tiltekið framboð korteri fyrir kosningar.
Hvað sem öðru líður vekja afskiptin upp áleitnar spurningar um fagmennsku í skólamálum og siðferði í stjórnmálum.

Framlag Íbúahreyfingarinnar til skólamála
En hvað var svona ógnandi? Getur verið að það hafi verið ákall Íbúahreyfingarinnar um úrbætur í skólamálum á kjörtímabilinu? Undir eðlilegum kringumstæðum myndi fólk ætla að starfsmenn Varmárskóla hefðu fulla ástæðu til að taka því fagnandi. En hér það helsta:
• Byggt verði nýtt mötuneyti við Varmárskóla;
• Kæliklefum fjölgað í mötuneytinu til að koma í veg fyrir að matvæli skemmist;
• Settar verði upp færanlegar stofur fyrir tónlistarkennslu á skólatíma fyrir yngri nemendur í Varmárskóla;
• Bæjaryfirvöld láti sig ónægju kennara varða í kjölfar nýrra kjarasamninga;
• Endurskoða áætlanir um uppbyggingu skólamannvirkja vegna fyrirsjáanlegrar fjölgunar nemenda í Varmárskóla;
• Hvatt til að fram fari opin umræða í fræðslunefnd um áskoranir í skólastarfi;
• Starfsumhverfi kennara verði bætt;
• Sérfræðiþjónusta við börn með sérþarfir og fagleg stoðkennsla verði aukin til bæta líðan nemenda og að gera skóla án aðgreiningar betur mögulegan;
• Bæjarráð fái árlega skýrslu um eineltismál í fyrirtækjum og skólum Mosfellsbæjar inn á borð til sín til að kanna umfang eineltismála og bregðast við þeim;
• Stofna sérstakt embætti jafnréttisfulltrúa til að styðja við jafnréttis- og kynjafræðslu í skólunum, auk þess að fræða skólabörn um hinar ýmsu birtingarmyndir ofbeldis;
• Óháður aðili verði fenginn til að gera úttekt á Varmárskóla vegna óánægju foreldra með mikilvæga þætti í skólastarfinu;
• Mosfellsbær veiti skólum/kennurum árleg hvatningarverðlaun til að verðlauna það sem vel er gert og vekja athygli íbúa á skólastarfinu.

F.h. Íbúahreyfingarinnar
Sigrún H Pálsdóttir