Piparkorn gefur út plötu og blæs til útgáfutónleika

Djasshljómsveitin Piparkorn var að gefa út sína fyrstu hljómplötu á Spotify.
Hljómsveitina skipa Mosfellingarnir María Gyða Pétursdóttir söngkona, Gunnar Hinrik Hafsteinsson sem spilar á gítar og bassa, Magnús Þór Sveinsson píanóleikari, Þorsteinn Jónsson á trommur og hin ungi og efnilegi 15 ára Keflvíkingur Guðjón Steinn Skúlason sem spilar á saxafón.
„Meðlimir Piparkorns hafa spilað saman í ýmsum myndum í gegnum tíðina en hljómsveitin eins og hún er skipuð í dag hefur spilað saman í rúmlega ár. Við höfum tekið þetta af mikilli alvöru síðasta árið og erum að uppskera eftir því.
Platan heitir Kryddlögur og inniheldur átta lög, fimm lög með söng og þrjú lög án söngs. Við erum virkilega ánægð með útkomuna og höfum fengið jákvæð viðbrögð,“ segir Gunnar Hinrik.

Tóku upp í stúdíó Sýrlandi
„Við vorum svo heppin að Mosfellingurinn Þorsteinn Gunnar Friðriksson var að gera lokaverkefni en hann er í hljóðtækninámi og bauð okkur að koma og taka upp í Stúdío Sýrlandi. Hann var okkur mikil stoð og stytta í þessu ferli. Hann hljóðblandaði og masteraði plötuna fyrir okkur. Þetta var algjört ævintýri en við tókum upp alla plötuna á einum degi og var þetta í fyrsta sinn sem við vorum í alvöru stúdíói,“ segir Þorsteinn.

Sigur í lagasmíðakeppni
„Við ákváðum með skömmum fyrirvara að taka þátt í lagasmíðakeppni MÍT og FÍH. Við sendum inn lagið Hvað er það, sem er eitt af lögunum á plötunni okkar.
Það er skemmst frá því að segja að við lentum í fyrsta sæti. Það var virkilega skemmtilegt að fá þessa viðurkenningu, sérstaklega þar sem margt hæfileikaríkt tónlistafólk tók þátt,“ segir Magnús Þór en að launum hlaut hljómsveitin tíma í stúdíói með hljóðmanni.
„Við hvetjum alla til að hlusta á plötuna okkar á Spotify en útgáfutónleikar verða haldnir á Barion sunnudaginn 21. júní, þar vonumst við til að sjá sem flesta Mosfellinga.“