Öll börn á unglingastigi hafa nú aðgang að tölvum

Frá afhendingu tölva í Varmárskóla.

Í síðustu viku tóku skólar í Mosfellsbæ á móti 360 Chromebook fartölvum til afnota fyrir nemendur í 7.-10. bekk í grunnskólum bæjarins.
Þá hafa einnig verið keyptir 200 iPadar til afnota fyrir nemendur í 1.–6. bekk. Um er að ræða stærsta einstaka áfangann í því átaki sem hefur staðið yfir síðustu misseri við að bæta tölvukost í grunnskólum bæjarins fyrir bæði nemendur og starfsmenn.

Þróunarvinna frá árinu 2019
Allt er þetta hluti af þróunar- og umbótavinnu á sviði upplýsingatæknimála grunnskóla bæjarins sem staðið hefur yfir frá árinu 2019. Frá því að síðast voru sagðar fréttir af verkefninu í Mosfellingi hefur ýmislegt átt sér stað.
Ráðgjafi var ráðinn síðasta haust til þess að styðja grunnskólana við að taka næstu skref í þróun upplýsingatæknimála. Unnin var greining og mat á tækjakosti skóla og á þeim grunni sett fram þarfagreining sem tók mið af stöðunni og þörfum skólanna. Í kjölfarið var gerður samningur um Seesaw aðgang fyrir alla nemendur í 1.-6. bekk og kennara þeirra og Google for Education fyrir nemendur á unglingastigi.

Dreift miðað við stöðu tækjaeigna
Þessum 360 fartölvum og 200 spjaldtölvum var dreift í skólana miðað við stöðu tækjaeignar í hverjum skóla og þess gætt að hún sé nú orðin sambærileg milli grunnskólanna.
Nemendur í 7.-10. bekk hafa nú hver og einn afnot að Chromebook í skólanun og í 1.-6. bekk verða um 1,6 nemendur um hvern iPad og auðvelt verður að fá bekkjarsett til afnota við verkefnavinnu.

Umbætur og þjálfun starfsfólks
Sett hefur verið á laggirnar upplýsingatækniteymi í hverjum grunnskóla, sérstök Seesaw og Google leiðtogateymi með þátttöku kennara og stjórnenda.
Allir grunnskólar geta nú hagnýtt Google for Education og hafa mörg námskeið verið haldin í grunnskólunum fyrir kennara um Google for Education umhverfið og Seesaw umhverfið auk sérsniðinna námskeiða fyrir leiðtogateymin sem síðan er ætlað að kenna í þeirra skólum og aðstoða aðra kennara.

Enn eitt stóra skrefið í skólaþróuninni
„Sú umbreyting á vinnubrögðum og fjárfesting í tækjum og hugbúnaði sem nú stendur yfir í skólum Mosfellsbæjar er enn eitt stóra skrefið í skólaþróun í Mosfellsbæ,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
Kennarar og aðrir starfsmenn grunnskóla munu bera þessa umbreytingu áfram í samvinnu við nemendur og foreldra og ég hef þá trú að góður undirbúningur og röggsöm framkvæmd fræðslu- og frístundasviðs, starfsmanna og stjórnenda skólanna hafi skipt sköpum í þessu verkefni og muni skila okkur miklu til framtíðar litið. Framtíðin er núna,“ segir Haraldur.