Öldur

oldur

Fyrir nokkrum vikum velti ég því fyrir mér hvort ég væri inni í bandarískri bíómynd þar sem allt gengi upp hjá söguhetjunum. Lífið var þannig að mér næstum fannst það of gott. Einkennileg tilfinning því auðvitað getur lífið ekki verið of gott. Síðan byrjuðu áskoranir af ýmsu tagi að detta inn á mitt borð, of margar fyrir minn smekk þótt engin þeirra væri háalvarleg. Ég datt í þann gír að vorkenna sjálfum mér, fannst ekki að ég ætti skilið að þurfa að kljást við allar þessar áskoranir.

Ég náði mér fljótlega upp úr þessum gír, fyrst og fremst með því að bera saman mínar aðstæður og áskoranir við þeirra sem virkilega eru að kljást við erfiðar aðstæður. Fór svo að hugsa þetta í kjölinn og komst að því, hugsanlega ekki fyrstur manna, að lífið er ekkert annað en endalausar bylgjur eða öldur. Stundum er maður á öldutoppnum, sér yfir hafið, nýtur þess að vera til. Stundum er maður í öldudal og þarf að hafa sig allan við til þess að halda sér á floti.

Mér fannst gott að sjá þetta svona myndrænt fyrir mér. Gat tengt þetta við sjósundið sem ég stunda reglulega með góðu fólki. Það er geggjað að synda í spegilsléttum sjónum í sól og blíðu, svamla áhyggjulaus um og njóta fegurðarinnar. En það er sömuleiðis magnað að fara í sjóinn í brjáluðu veðri. Tilfinningin er allt öðruvísi. Maður þarf að passa sig betur, hafa meira fyrir hlutunum. Hugsa öðruvísi. Stilla orkuna rétt. Ef maður berst sem óður maður á móti straumnum, klárar maður sig fljótt. Það sigrar enginn náttúruöflin. Ef maður hins vegar andar rólega, syndir með öldunum og velur réttu leiðirnar fær maður aukinn kraft og orku. Skilaboðin, það er alltaf leið og öldurnar lægir alltaf aftur, sama hvað þær eru kraftmiklar. Njótum lífsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 10. nóvember2016