Ný framtíðarsýn og áherslur Mosfellsbæjar

Hjá Mosfellsbæ starfa um 650 manns.

Hjá Mosfellsbæ starfa um 650 manns.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Að veita þjónustu sem mætir þörfum, vera til staðar fyrir fólk og þróa samfélagið í rétta átt er leiðarljósið í stefnu og framtíðarsýn Mosfellsbæjar sem bæjarráð samþykkti á fundi sínum 20. júlí sl.
Stefnan er afrakstur vinnu sem stóð yfir frá því snemma í vor og skiptist stefnan í þrjá áhersluflokka og níu áherslur sem munu móta og stýra starfsemi Mosfellsbæjar til næstu ára.
Að sögn Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra var Mosfellsbær fyrst sveitarfélaga hérlendis til þess að marka sér heildstæða stefnu um það hvernig starfsmenn leysa sín verkefni í þágu íbúa og hvernig þeir styðja kjörna fulltrúa við að koma stefnu málaflokka í framkvæmd. Sú stefnumörkun átti sér stað árið 2007 og kominn var tími til þess að endurtaka leikinn.

Mosfellsbær er einn vinnustaður
„Gildi Mosfellsbæjar voru mótuð árið 2007 og hafa nýst okkur við að búa til einn vinnustað,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Við lítum á bæjarskrifstofurnar og stofnanir bæjarins sem heild og þá er gott að vinna með sameiginleg gildi. Við unnum saman að því að þróa gildin okkar áfram haustið 2016 og létum þau því halda sér í þeirri vinnu sem fram fór í vor en mótuðum í samvinnu við starfsmenn og stjórnendur framtíðarsýn og áherslur til ársins 2027.“

Snjöll, meðvituð og sjálfbær
„Áhersluflokkarnir í stefnu Mosfellsbæjar eru rétt þjónusta, flott fólk og stolt samfélag. Undir þessum flokkum setjum við fram níu áherslur. Við viljum vera persónuleg, skilvirk og snjöll. Einnig samstarfsfús, framsækin og meðvituð. Loks viljum við vera eftirsótt, heilbrigð og sjálfbær.
Þegar við segjumst vilja vera snjöll þá ætlum við að nýta snjallar lausnir og spara íbúum sporin með rafrænni þjónustu, auka þannig aðgengi að þjónustu og hafa um leið jákvæð umhverfisleg áhrif.
Við erum meðvituð um að mikilvægt sé að vera til fyrirmyndar varðandi rekstur og þróun starfseminnar og að sveitarfélagið sé rekið af ábyrgð og þannig afhendum við reksturinn til komandi kynslóða.
Með því að vera sjálfbær leggjum við þá áherslu að láta umhverfið okkur varða, sinna málaflokknum af kostgæfni og tryggja að nálægð okkar við náttúruperlur sé nýtt samfélaginu til góðs.“

Að mæta þörfum nýrra íbúa
Eitt af því sem þátttakendum í vinnunni var hugleikið var sú fjölgun íbúa sem mun verða næstu misserin og mikilvægi þess fyrir íbúa, kjörna fulltrúa og starfsmenn að vel takist til við að nýta það tækifæri.
„Við leggjum því áherslu í stefnunni á að vöxtur sveitarfélagsins hafi jákvæð áhrif á þjónustu og þjónustustig og það sé sameiginlegt verkefni íbúa, kjörinna fulltrúa og starfsfólks að svo verði,“ segir Haraldur að lokum.

Framtíðarsýn Mosfellsbæjar
Mosfellsbær er fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag sem setur umhverfið
í öndvegi og hefur þarfir og velferð íbúa að leiðarljósi.