Mosfellsbær er íþróttabær

Ásgeir Sveinsson

Ásgeir Sveinsson

Mosfellsbær er íþróttabær þar sem fram fer kröftugt og fjölbreytt íþróttastarf. Það er afar mikilvægt í okkar samfélagi að stundaðar séu íþróttir og hreyfing um allan bæ.
Það hefur sjaldan verið mikilvægara að hvetja fólk á öllum aldri til reglulegrar hreyfingar sem bætir heilsu og líðan fólks á öllum aldri, ekki bara líkamlega heldur líka andlega. Það er mikil og víðtæk forvörn fólgin í þátttöku barna og unglinga í íþrótta- og tómstundastarfi.
Við Sjálfstæðismenn metum þetta starf mikils, erum stolt af okkar íþrótta og afreksfólki og höfum á liðnum árum stutt dyggilega við bakið á okkar íþróttafólki í flestum greinum íþrótta og tómstunda. Þann stuðning ætlum við að efla enn frekar á næsta kjörtímabili.

Eflum lýðheilsu
Það er einnig markmið okkar í heilsueflandi samfélagi að fjölga fólki sem hreyfir sig reglulega og ná til enn fleiri barna og unglinga sem eru ekki í skipulögðu íþrótta- eða tómstundastarfi.
Til þess að gera það höfum við t.d. hækkað frístundaávísunina um 280% á kjörtímabilinu og er hún nú 50 þúsund krónur á ári með hverju barni og mun hærri fyrir barnmargar fjölskyldur.
Það er einnig mjög jákvæð þróun að íþróttaiðkun er sífellt að aukast hjá eldra fólki. Við viljum fjölga möguleikum fyrir þann hóp til íþróttaiðkunar undir leiðsögn faglærðra leiðbeinenda.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Fjölgun íbúa og iðkenda – uppbygging
Íbúum fjölgar ört í Mosfellsbæ og ein af ástæðum þess að ungt fjölskyldufólk kýs að setjast hér að er öflugt íþrótta- og tómstundastarf, og fólk horfir einnig til þeirrar góðu íþróttaaðstöðu sem boðið er upp á.
Við höfum stutt við starfsemi og uppbyggingu margra íþrótta- og tómstundafélaga og má þar t.d. nefna nýtt skátaheimili, uppbyggingu á aðstöðu á golfvöllum í Mosfellsbæ, auk stuðnings og samstarfs við hestmannafélagið Hörð.
Íþróttasvæðið að Varmá er hjarta íþróttaiðkunar í bænum og þar hafa staðið yfir endurbætur og uppbygging á liðnum árum. Má þar nefna nýtt fimleikahús og á þessu ári var sett nýtt gervigras á stóra völlinn, auk þess sem verið er að hefjast handa við byggingu fjölnota knatthúss sem tekið verður í notkun árið 2019. Fleiri framkvæmdir eru fram undan því góð aðstaða er undirstaða þess að íþrótta- og tómstundastarf blómstri og dafni.

Við Sjálfstæðismenn ætlum að halda áfram að bæta og byggja upp íþróttaaðstöðuna í bænum. Við ætlum í góðu samstarfi við íþrótta- og tómstundafélög eins og t.d. Aftureldingu að halda áfram að vinna að uppbyggingu að Varmá. Félagið er að vinna að stefnumótun og forgangsröðun varðandi uppbyggingu á Varmársvæðinu og er knattspyrnudeildin, sem er stærsta deildin, komin lengst í að móta sína stefnu í þeim málum.
Bygging knatthússins er liður í þeirra óskum og stefnu, auk fleiri framkvæmda sem þarf að forgangsraða í samstarfi við félagið eins og t.d. öðrum gervigrasvelli í fullri stærð, fjölgun klefa við íþróttamiðstöðina að Varmá og byggingu félagsaðstöðu, svo dæmi séu tekin.

Uppbygging íþróttaaðstöðu – langtímaverkefni
Miðað við spár um fjölgun íbúa í Mosfellsbæ á næstu árum og þar með fjölgun iðkenda í íþrótta- og tómstundastarfi í íþróttabænum okkar er ljóst að nauðsynleg uppbygging á íþróttaaðstöðu mun halda áfram í takti við þá aukningu.
Við Sjálfstæðismenn ætlum að halda áfram kröftugri uppbyggingu og bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar. Með því stuðlum við að enn frekari þátttöku fólks í heilsueflandi samfélagi sem Mosfellsbær er.

Áfram Mosó!

Ásgeir Sveinsson, framkvæmdastjóri,
2. sæti á lista Sjálfstæðismanna.
Rúnar Bragi Guðlaugsson, framkvæmdastjóri,
4. sæti á lista Sjálfstæðismanna.