Hef alltaf haft áhuga á mótorsporti

steini

Steingrímur Bjarnason er þaulreyndur akstursíþróttamaður og hefur tekið þátt í torfæru- og sandspyrnukeppnum víða um land.

Það eru ekki margir sem keyra um á 12 metra langri rútu með torfærubíl í skottinu en það gerir aksturs­íþróttamaðurinn Steingrímur Bjarnason þegar hann leggur af stað í ferðir sínar út á land. Fjölskyldan er oftar en ekki með í för enda rútan innréttuð sem húsbíll með gistirými fyrir sex fullorðna.

Steingrímur, eða Steini eins og hann er ávallt kallaður, hefur unnið margar torfæru- og sandspyrnukeppnir í gegnum tíðina enda bera bikararnir hans áttatíu og ýmis önnur verðlaun þess merki.

Steingrímur er fæddur á Akureyri 11. ágúst 1967. Foreldrar hans eru Aðalheiður Valgerður Steingrímsdóttir frá Kroppi í Eyjafjarðarsveit og Bjarni Indriðason frá Víðigerði í Mosfellsdal en þau eru bæði látin.
Steingrímur á tvo bræður, þá Gunnlaug Indriða fæddan 1970 og Eyþór Má fæddan 1974.

Á skellinöðru í gryfjunum
„Ég er alinn upp í Mosfellsbæ og það var mjög gott að alast hér upp. Ég bjó í Álafosskvosinni þangað til ég var tólf ára en þá fluttum við fjölskyldan í Byggðarholtið. Maður var alltaf úti að leika í alls konar leikjum eða úti að hjóla en svo tóku skellinöðrurnar við og þá var farið í gryfjurnar við Gagnfræðaskólann eða í Ullarnesgryfjurnar. Er ég lít til baka þá held ég að torfæruáhugi minn hafi byrjað þarna.
Þegar ég var að alast upp þá þekktu allir alla hérna í sveitinni en nú hefur bærinn stækkað mikið. Hér er samt alltaf jafn rólegt og gott að vera.
Á sumrin í æsku var ég í sveit hjá afa mínum og ömmu í Eyjafirði. Þar var alltaf skemmtilegt að vera enda var maður innan um dýrin og tók þátt í heyskapnum.“

Fékk vinnu á Álafossi
„Ég gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskólann, í raun höfum ég og skólar aldrei átt samleið, en það var samt ágætt að vera þar. Helga Richter var minn uppáhaldskennari.
Eftir útskrift úr Gaggó fór ég að vinna í ullarverksmiðjunni á Álafossi þar sem foreldrar mínir störfuðu og þar var ég í fjögur ár. Ég byrjaði að vinna í tætaradeildinni við að tæta ullina, blanda saman litum og svo blés maður ullinni milli klefa en þetta var gert með höndunum. Síðar kom vél sem sá um þennan hluta og þá varð þetta allt mun léttara. Þetta var góður tími og ekki skemmdi fyrir að ég vann í sömu deild og pabbi.“

Hugsa til þeirra á hverjum degi
Foreldrar Steingríms kynntust í ullarverksmiðjunni og unnu þar alla tíð. Bjarni varð bráðkvaddur árið 1999 en sama ár greindist Heiða með krabbamein. Hún lést sjö árum síðar. „Þetta hafði gríðarleg áhrif á mann og skrítin tilfinning að hafa þau ekki lengur hér meðal okkar en ég hugsa til þeirra á hverjum degi,” segir Steini alvarlegur á svip er ég spyr hann út í foreldramissinn.
Eftir Álafossárin fór Steini að vinna á dekkjarverkstæði og smurstöð og er búinn að vera lengst af í þeim störfum. Í dag starfar hann hjá Kletti – sölu og þjónustu við þjónustu á dekkjalager og sér einnig um útkeyrslu.

Ferðalögin í uppáhaldi
Steini kynntist eiginkonu sinni Jóhönnu Hólmfríði Guðmundsdóttur lyfjafræðingi árið 1990 og þau giftu sig tíu árum seinna. Þau eiga þrjú börn, Ingimund Bjarna fæddan 2001 og tvíburana Aðalheiði Valgerði og Hlyn Bergþór fædd 2003.
„Við fjölskyldan höfum mjög gaman af því að ferðast, við förum til útlanda og eins höfum við gaman af að fara í útilegur um landið og förum þá á rútunni okkar.“

Bíllinn orðinn stór hluti af manni
„Ég hef haft áhuga á mótorsporti frá því ég man eftir mér. Ég keypti mér Willys jeppa árgerð 1964 í janúar 1990 og byrjaði að keppa á honum í júní sama ár. Ég skírði hann Strumpinn því það á vel við litinn á honum. Nú er ég búin að eiga hann í 27 ár og í gegnum tíðina hef ég breytt honum mikið. Það er óhætt að segja að bíllinn sé orðin stór hluti af manni eftir öll þessi frábæru ár saman.
Ég keppti í þrjú ár en svo tók ég hlé á keppnum og var aðstoðarmaður hjá félögum mínum á árunum 1993-2006. Eftir það byrjaði ég að keppa aftur á sama bílnum og geri enn í dag.“

Allir til í að hjálpa ef eitthvað bilar
Steini hefur unnið margar torfæru- og sandspyrnukeppnir í gegnum tíðina enda bera bikararnir hans áttatíu og ýmis önnur verðlaun þess merki. Hann varð Íslandsmeistari í torfæru árið 1991 og 2009 og varð Íslandsmeistari í sandspyrnu í jeppaflokki 2009.
Ég spyr Steina hvað sé skemmilegast við torfæruna? „Fyrir utan að keyra í brekkunum þá er það félagsskapurinn, allt þetta frábæra fólk sem er í þessu sporti. Það eru allir vinir þótt menn séu að keppa hver á móti öðrum, allir eru til í að hjálpa ef eitthvað bilar eða skemmist í veltu.“

Mosfellingurinn 19. október 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs