Mosfellingar bjóða heim – Í túninu heima

Íbúar Mosfellsbæjar gera sig klára fyrir bæjarhátíðina. Bænum er skipt upp í fjóra liti, rauðan, gulan, bleikan og bláan.

Íbúar Mosfellsbæjar gera sig klára fyrir bæjarhátíðina. Bænum er skipt upp í fjóra liti, rauðan, gulan, bleikan og bláan.

Bæjarhátíðin, Í túninu heima, verður haldin um helgina. Dagskráin er glæsileg að vanda og þar ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hátíðin hefur fyrst og fremst verið byggð upp á framtaki íbúa bæjarins og þátttöku þeirra.
Boðið verður upp á þekkta dagskrárliði eins og Ullarpartí og markaðsstemningu í Álafosskvos, flugvéla- og fornvélasýningu á Tungubökkum, kjúklingafestival, stórtónleika á Miðbæjartorgi, götugrill og Pallaball. Frítt verður í leið 15 allan laugardaginn þannig að það er tilvalið að skilja bílinn eftir heima.

Tindahlaupið festir sig í sessi
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og íþróttatengdir viðburðir eru nokkrir. Til dæmis er hægt að nefna Tindahlaup Mosfellsbæjar sem er samstarfsverkefni bæjarins og Björgunarsveitarinnar Kyndils. Í fyrra var metþátttaka eða um 120 hlauparar. Boðið er upp á fjórar vegalengdir og er enn stefnt að því að fjölga þátttakendum. Lagt er upp úr því að hafa umgjörðina veglega og markmiðið er að hlaupið verði eitt af vinsælustu náttúrhlaupum ársins. Fellin í kringum Mosfellsbæ, nálægðin við náttúru og þéttbýli gera hlaupið einstakt og aðlaðandi fyrir hlaupara, bæði byrjendur og lengra komna. Hlaupið er hluti af þríþraut sem nefnist Íslandsgarpurinn.

Fjölbreytt dagskrá að Varmá
Kjúklingafestivalið er komið til að vera en því hefur verið vel tekið af gestum hátíðarinnar. Þar koma saman allir helstu kjúklingaframleiðendur landsins og bjóða upp á framleiðslu sína. Auk þess selja þekktir veitingastaðir smáskammta. Boðið verður upp á fjölbreytta skemmtun á svæðinu fyrir alla fjölskylduna.

Mosfellingar bjóða heim
Sérstaða bæjarhátíðarinnar í Mosfellsbæ felst í boði Mosfellinga í garðana sína. Víða er boðið upp á metnaðarfulla dagskrá og landsfræga listamenn í einstöku umhverfi. Nemendafélag FMOS býður upp á vöfflu­kaffi í Framhaldsskólanum og rennur ágóðinn til Reykjadals.

Tökum þátt
Mosfellsbær vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem hafa lagt hönd á plóg við að gera Í túninu heima að þeirri stóru hátíðarhelgi sem hún er orðin ár hvert. Verum stolt af bænum okkar og njótum samverunnar um helgina.
Sérstakt hátíðarlag hefur nú verið gefið út en það er eftir þær Sigrúnu Harðardóttur og Agnesi Wild úr Leikfélagi Mosfellssveitar. Þær hafa fengið stórskotalið Mosfellinga með sér í lið og glæsilegt myndband hefur litið dagsins ljós.

Smelltu hér til að skoða dagskrá hátíðarinnar 2016 (pdf)