Mikil uppbygging fram undan

xxx

Birna Kristín Jónsdóttir fræðslufulltrúi í Seðlabanka Íslands er nýr formaður Ungmennafélagsins Aftureldingar.

Ungmennafélagið Afturelding var stofnað 11. apríl 1909. Afturelding hefur heilsu allra aldurshópa að leiðarljósi með því að hvetja til og standa fyrir heilbrigðri afþreyingu í formi íþrótta og hreyfingar en innan félagsins starfa ellefu deildir.
Á aðalfundi Aftureldingar sem fram fór í maí sl. var kosinn nýr formaður, Birna Kristín Jónsdóttir. Hún sér fram á mikla uppbyggingu hjá félaginu á næstunni í samstarfi við Mosfellsbæ og mun verða unnið að því að móta raunhæf framtíðar­áform.

Birna Kristín er fædd á Eskifirði 9. ágúst 1971. Foreldrar hennar eru Olga A. Björnsdóttir húsmóðir og Jón Ingi Einarsson fyrrum skólastjóri. Systkini Birnu eru þau Aðalheiður Björk, Dagný og Einar Guðberg.

Bæði í frjálsum og fótbolta
Birna var aðeins eins árs þegar hún flutti ásamt fjölskyldu sinni frá Eskifirði til Víkur í Mýrdal. Þar bjuggu þau í 10 ár þangað til þau fluttu aftur austur. „Mér fannst mjög gaman að búa á báðum þessum stöðum þótt ég líti nú alltaf á mig sem Eskfirðing. Ég var í íþróttum, bæði í frjálsum og fótbolta, fyrst með Drangi í Vík og síðan Austra.“

Skilin eftir á Skeiðarársandi
„Ég hafði yfirleitt gaman af öllum hlutum en hef heyrt það frá foreldrum mínum að ég hafi verið ansi baldin sem krakki. Alltaf vöknuð um leið og sólin kom upp og þau þurftu alveg að hafa fyrir mér. Sem dæmi má nefna að eitt skipti var ég skilin eftir á Skeiðarársandi því ég hlýddi ekki. Ég var beðin um að sitja í aftursætinu á bílnum en það vildi ég ekki, ég vildi standa á milli sætanna.
Ég var sett á leikskóla en það hentaði mér ekkert sérlega vel, ég náði að strjúka þaðan og það lýsir mér kannski vel því ég hef alltaf farið mínar eigin leiðir.“

Skutlaði öllum út af laglínunni
„Þegar ég var 13 ára var stofnaður kór á Eskifirði. Tónlistarkennarinn tók alla í prufur og þetta var mjög gaman. Einn daginn sagði mamma við mig við kvöldverðarboðið: „Birna mín, er ekki alveg nóg fyrir þig að vera bara í boltanum og frjálsum, svo er skólinn og blaðburðurinn og svona?“ Ég jánkaði því nú en þá hafði tónlistarkennarinn gefið mömmu „hint“ um það að ég hefði þann eiginleika að skutla öllum út af laglínunni með mínu einstaka lagi,“ segir Birna og brosir
„Ég gekk í Víkurskóla en kláraði svo skylduna í grunnskóla Eskifjarðar. Mér þótti skemmtilegast í íþróttum og stærðfræði. Uppáhaldskennarinn minn var líklega Helga Unnarsdóttir sem kenndi mér leikfimi en hún brann fyrir frjálsum íþróttum og smitaði okkur sannarlega með sér. Eftir grunnskóla flutti ég til Reykjavíkur í íbúð sem foreldrar mínir áttu og bjó þar með systur minni.“

Lentu í ýmsum ævintýrum
Ég fór í Verslunarskóla Íslands, kláraði verslunarprófið og tók svo frí í eina önn og vann í síldinni heima. Það var alveg hrikalega skemmtilegt tímbil.
Í janúar 1990 byrjaði ég í MH og kláraði stúdentinn þaðan. Þar kynntist ég einni af mínum bestu vinkonum, henni Huldu Þóreyju. Við fórum saman í Interrail eftir útskrift og lentum í ýmsum ævintýrum. Okkur fannst við mjög fullorðnar en við vorum í raun eins og tvær úr Tungunum, hún frá Kópaskeri og búin að fara einu sinni til útlanda og ég frá Eskifirði og var að fara í fyrsta skipti.
Eftir þessa dýru og frábæru ferð fékk ég vinnu í Seðlabankanum og þar starfa ég enn en hef líka tekið ýmis konar nám samhliða vinnunni. Þetta er frábær vinnustaður og ég hef alltaf verið mjög lánsöm með samstarfsfólk og yfirmenn.“

Leikurinn endaði með jafntefli
Birna Kristín kynntist eiginmanni sínum Herði Hafberg Gunnlaugssyni húsasmíðameistara árið 2005 en þau giftu sig tveimur árum síðar. „Það var sko þvílík lukka að kynnast Herði. Okkar fyrsta deit var að horfa saman á fótboltaleik Manchester United – Liverpool sem endaði með jafntefli sem lýsir okkar hjónabandi ansi vel,“ segir Birna og brosir.
Við eigum sameiginlega þrjár dætur, Hrafnhildur Olga dóttir mín er fædd 1994 og Ásta Jóhanna hans Harðar er fædd 1998 en Ingibjörg Ólína er fædd 2009.
Við fjölskyldan komum úr Grafarholtinu og þegar kom að því að stækka við okkur þá rákumst við á eign í Mosfellsbæ. Við skoðuðum hana og vorum fljót að sjá að þetta væri sú eina rétta. Við fluttum í maí 2014 og okkur hefur verið einstaklega vel tekið hérna og höfum eignast marga góða vini.“

Afturelding er einstakt félag
„Áhugamál mín eru held ég bara allar íþróttir, skíði og útivist. Ég hef æft margar íþróttir en knattspyrnan er þó alltaf í uppáhaldi.
Þegar ég var búin að starfa í þrjú ár sem gjaldkeri Aftureldingar tók ég við sem formaður. Frá þeim tíma sem ég tók við hefur starfið verið mjög fróðlegt, krefjandi og skemmtilegt. Formaður er ekkert nema hafa gott fólk með sér, aðalstjórnin er sérstaklega vel mönnuð og ekki skemmir fyrir allt það yndislega starfsfólk íþróttahússins sem við reiðum okkur á.
Afturelding er einstakt félag og framtíð iðkenda er björt. Fram undan er mikil uppbygging á aðstöðumálum, við erum að fara að skipta út gólfi í sölum og svo fer að rísa knattspyrnuhús hjá okkur. Meistaraflokkur karla er efstur í 2. deildinni í dag og ef þeir fara upp um deild eru meiri kröfur af hálfu KSÍ um vallaraðstæður og umgjörð en við mætum í dag. Það verður spennandi verkefni að fara í ef af verður.“

Mótum raunhæf framtíðaráform
„Við vinnum í góðu samstarfi við Mosfellsbæ en bærinn á og rekur öll þau mannvirki sem við notum. Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að ekki er hægt að gera allt í einu en saman vinnum við að því að móta raunhæf framtíðaráform. Það verður gaman að sjá hvert við verðum komin á 110 ára afmæli félagsins á næsta ári.
Maður finnur glöggt þegar vel gengur í íþróttunum hvað það sameinar Mosfellinga og því gríðarlega mikilvægt að við stöndum okkur vel. Það er á okkar ábyrgð að veita deildunum okkar toppaðstöðu.
Ég held að það sé alveg óhætt að segja að Aftureldingarhjartað slær í öllum Mosfellingum,” segir Birna brosandi að lokum.

Mosfellingurinn 6. september 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs