Með sól í hjarta…

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Vorið er skemmtilegur árstími enda dásamlegt að sjá dagana lengjast, trén laufgast, grasið grænka, unga klekjast úr eggjum og svo mætti lengi telja. Það lifnar yfir öllu og nú er um að gera að hlaða sig orku og jákvæðni fyrir sumarið.

Hjólað í vinnuna
Nú er tæp vika eftir af lýðheilsuverkefninu Hjólað í vinnuna sem hófst 8. maí sl. og stendur til 28. maí. Helsta markmið verkefnisins er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Þátttakendur eru hvattir til þess að ganga, hjóla, hlaupa eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu. Þegar þessi orð eru skrifuð er Mosfellsbær í þriðja sæti í sínum flokki og hvetjum við að sjálfsögðu alla sem vettlingi geta valdið að leggja sitt lóð á vogarskálarnar á lokametrunum! Nánari upplýsingar er hægt að sjá á www.hjoladivinnuna.is.

Hreyfivika UMFÍ – Move Week
Hreyfivikan verður dagana 27. maí – 2. júní nk. en hún er hluti af stóru lýðheilsuverkefni sem fram fer um gjörvalla Evrópu. Markmiðið er að fá hundrað milljónir fleiri Evrópubúa til að hreyfa sig reglulega fyrir árið 2020 og eru allir hvattir til að finna sína uppáhalds hreyfingu. Í fyrra var fjöldi viðburða í boði í Mosfellsbæ og allt stefnir í að það sama verði uppi á teningnum í ár. Nánari upplýsingar um viðburði verður hægt að finna á www.iceland.moveweek.eu, síðum bæjarins og síðum Heilsueflandi samfélags.

Heilsudagurinn í Mosfellsbæ 2019
Dagurinn verður að venju haldinn hátíðlegur í Hreyfiviku UMFÍ og mun, líkt og síðustu ár, hefjast á morgungöngu í samvinnu við Ferðafélag Íslands og ljúka svo með Heilsudagsmálþingi í Listasalnum um kvöldið. Meðal þess sem verður á dagskrá er afhending Gulrótarinnar, lýðheilsuviðurkenningar Mosfellsbæjar, en þetta verður í þriðja sinn sem viðurkenningin er afhent. Sölvi Tryggvason rithöfundur og fjölmiðlamaður mun einnig leiða okkur í gegnum vegferð sína til bættrar heilsu sem hann lýsir í nýútkominni bók sinni Á eigin skinni.

Við hvetjum ykkur sem fyrr eindregið til að taka þátt í því sem boðið er upp á og virkja fólkið í kringum ykkur til að gera slíkt hið sama – því maður er manns gaman – og félagslegi þátturinn er svo sannarlega mikilvægur í vegferð okkar til hamingju og heilbrigðis.

Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ