Litið yfir árið…

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Árið 2015 var sérstaklega tileinkað hreyfingu og útivist í bænum. Meðal helstu markmiða okkar var að auka áhuga og aðgengi að hreyfingu og auka nýtingu útivistarsvæða í Mosfellsbæ.

Heilsudagurinn 2015
Heilsudagurinn var haldinn í maí sl. þar sem var m.a. blásið til glæsilegs málþings í Framhaldsskólanum. Birgir Jakobsson, landlæknir, flutti ávarp og setti þingið, við heyrðum af mörgum flottum verkefnum í skólum bæjarins, fengum fróðlegt erindi um hreyfiseðilinn og síðan setti Magnús Scheving punktinn yfir i-ið og hreif alla viðstadda svo sannarlega með sér.

Heilsuefling í skólasamfélaginu
Skólarnir hafa verið duglegir að hvetja börn, foreldra og starfsfólk til þátttöku í þeim landsverkefnum sem eru í gangi hverju sinni og var upphafshátíð „Göngum í skólann“ einmitt í Lágafellsskóla sl. haust. Í ágúst var svo formlega stofnaður „Heilsueflandi skólahópur“ með aðkomu Skólaskrifstofunnar, Heilsuvinjar og fulltrúa allra skólastiga. Tilgangur þessa hóps er að stuðla að enn frekari heilsueflingu í skólasamfélaginu í gegnum samvinnu og upplýsingagjöf þvert á skóla og skólastig.

„Hreyfum okkur saman“
Í vor stóðu þekktir Mosfellingar fyrir spennandi viðburðum á útivistarsvæðum í bæjarfélaginu. Þar var m.a. hjólað, gengið og farið í Frisbígolf en tilgangurinn var sá að kynna útvistarsvæði bæjarins og hvaða möguleikum þau búa yfir.
Af sama meiði spratt upp verkefni sem snýst um að útbúa stutt kynningarmyndbönd nokkurra útivistarsvæða. Verkefnið er unnið í samvinnu við nemendur í Framhaldsskólanum sem virkja nemendur annarra skólastiga með sér í vinnunni á ýmsan hátt. Afrakstur þessa skemmtilega verkefnis mun líta dagsins ljós von bráðar.

Hreyfivikan „Move Week“
Við tókum að sjálfsögðu þátt í þessu verkefni eins og í fyrra og það er skemmst frá því að segja að dagskráin var stórglæsileg, mun fleiri stóðu fyrir viðburðum og þátttakan hefur aldrei verið betri. Við stefnum að sjálfsögðu enn hærra að ári.

Umhverfisvænir innkaupapokar
Í haust var fjölnota innkaupapokum dreift á hvert heimili í bænum sem gjöf frá Mosfellsbæ og Heilsuvin. Notkun hans á m.a. að stuðla að minni notkun plasts og hafa þar með jákvæð áhrif á náttúruna og heilsu manna og dýra.

Næstu verkefni
Það er ýmislegt spennandi fram undan. Fyrst skal nefna verkefnið „Væntumþykja í verki“ sem tekið verður upp á dvalarheimilinu og hvetur fjölskyldu og vini til að gera æfingar með eldri ástvinum sínum. Einnig mun vinna að ratleik í Mosfellsbæ halda áfram í samvinnu við Ferðafélag Íslands auk þess sem farið verður í samstarf við Einar Skúlason í tengslum við gönguleiða-appið „WAPP“.

Það er ljóst að það er heilmikið um að vera í heilsubænum Mosfellsbæ en án ykkar væri þetta verkefni ekki komið á þann stað sem það er í dag. Við þökkum ykkur fyrir frábært samstarf og velvilja á árinu og sendum ykkur hlýjar hátíðakveðjur með ósk um heilbrigði og gleði á nýju ári.

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Greinin birtist í Mosfellingi 17. desember 2015