Lifandi málaskrá og dagbók

Stefán Ómar Jónsson

Kæru Mosfellingar.
Bættur aðgangur að upplýsingum er forsenda gegnsæi í störfum stjórnsýslunnar en það er eitt af áherslum Vina Mosfellsbæjar.
Það er því okkar kjörinna fulltrúa að búa svo um hnútana að íbúarnir geti á auðveldan hátt nálgast upplýsingar og öðlast þannig innsýn í verkefni stjórnsýslunnar.
Aukin upplýsingagjöf og gott aðgengi að upplýsingum eykur traust á störf stjórnsýslunnar um leið og íbúum er gert það sem auðveldast að kynna sér hin ýmsu mál sem þar eru til meðferðar hverju sinni. Málsnúmer og heiti mála úr málaskránni getur allur almenningur svo nýtt sér til að óska frekari upplýsinga um mál á grundvelli heimilda í upplýsingalögum nr. 140/2012.

Með þetta í huga lagði undirritaður fram tvær tillögur í bæjarráði Mosfellsbæjar í þessari viku um:
– Rafrænan aðgang almennings að málaskrá Mosfellsbæjar og
– Rafræna birtingu helstu daglegra verkefna bæjarstjóra.
Þess má geta að ráðuneytin eru um þessar mundir að undirbúa að birta málaskrár sínar á vef stjórnarráðsins og er tilgangurinn einmitt sá að auðvelda almenningi að fá yfirsýn yfir verkefni hvers ráðuneytis. Núverandi forsætisráðherra hefur einnig beitt sér fyrir því að dagbækur ráðherra í ríkisstjórn Íslands eru nú þegar aðgengilegar á vef stjórnarráðsins.

Hér að neðan fylgir slóð á dagbók forsætisráðherra þar sem fólk getur kynnt sér hvernig undirritaður sér fyrir sér að birting á dagbók bæjarstjóra Mosfellsbæjar gæti litið út.
En af hverju dagbók bæjarstjóra? Jú vegna þess að öll verkefni sem bæjarstjóri innir af hendi í nafni embættis bæjarstjóra eru opinber embættisverk sem eðlilegt væri að íbúar Mosfellsbæjar gætu fylgst með.

Það er von mín að bæjarráð taki vel í fyrirliggjandi tillögur mínar um rafrænan aðgang íbúa að annars vegar málaskrá Mosfellsbæjar og hins vegar að dagbók bæjarstjóra.

Stefán Ómar Jónsson, bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar.

Til upplýsingar er hér hlekkur á dagbók forsætisráðherra 1. – 7. mars 2021.