Lausn á rekstrarvanda Hamra

hamrarhjúkrunarheimili

Mosfellsbær, velferðarráðuneytið og Hamrar – hjúkrunarheimili hafa komist að samkomulagi um lausn á langvarandi rekstrarvanda heimilisins.
Samkomulagið er forsenda þess að unnt sé að draga til baka uppsögn Mosfellsbæjar á þjónustusamningi við ráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands um rekstur Hamra, sem og uppsögn Hamra ehf. um rekstur heimilisins.
Samkomulagið felur í sér að stækkun hjúkrunarheimilisins hafi forgang við frekari uppbyggingu hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu og að undirbúningsvinnu uppbyggingarinnar verði hraðað. Þá verður veitt tímabundin heimild til fjölgunar rýma um þrjú.
Stækkun hjúkrunarheimilisins er forsenda fyrir sjálfbærni rekstursins í framtíðinni. Arkitektar hafa þegar lagt fram hugmyndir um stækkun sem nemur allt að 44 rýmum með viðbótarhæð ofan á núverandi hús, ásamt byggingu norðan við það, sem gæfi möguleika á allt að 74 rýmum.

Fallist á stækkun hjúkrunarheimilisins
Þá felur samkomulagið í sér að unnin verði greining á kostnaði vegna umönnunar yngri íbúa á hjúkrunarheimilinu. Leiði greiningin í ljós að greiðslur til heimilisins vegna yngri íbúa séu vanmetnar mun ríkið taka tillit til þess kostnaðar við ákvörðun daggjalda.
„Það er afar ánægjulegt að tekist hafi að leysa rekstravanda Hamra og tryggja rekstur heimilisins til framtíðar. Það er einnig mikilvægt að fallist hafi verið á stækkun Hamra því þörfin er svo sannarlega til staðar“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.