Lattelepjandi mosfellsk lopapeysa

Bryndís Haraldsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir

Ég elska Mosfellsbæ, mér finnst yndislegt að búa í smá sveit þar sem stutt er í náttúruna og samkennd einkennir mannlífið. En ég væri líka til í smá miðbæ, geta sótt kaffihús eftir kl. 18 og farið út að borða með vinkonum eða fjölskyldu og geta valið milli staða sem ekki flokkast undir skyndibita.
Miðbær í Mosfellsbæ verður aldrei eitthvað á við miðbæinn í höfuðborginni. En hér ætti að geta skapast mannlíf á við það sem nú er að skapast í kringum miðbæ í nágrannasveitarfélögum okkar. Við ættum að geta haft Kaffi Mosó, eins og kaffihús í Vesturbænum eða Laugalæknum. Kannski er þess ekki langt að bíða að þetta geti orðið að veruleika.
Byggingaverktakar hafa nú sýnt miðbænum aukna athygli og vænta má þess að á næstu misserum byggist upp bæði verslun, þjónusta og íbúðir í miðbænum okkar.
Skipulagsnefnd er einhuga um mikilvægi þess að fjölga þurfi íbúðum í miðbæ Mosfellsbæjar enda er ein af forsendum þess að Borgarlínan (framtíðar almenningssamgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins) nái upp í Mosfellsbæ sú að í miðbænum sé nægjanlega mikill fjöldi fólks fyrir slíka þjónustu.

Miðbæjaruppbygging
Nú á næstu vikum verður auglýst breyting á lóðum sem ná frá framhaldsskólanum og að Krónubyggingunni. Þar á að byggja upp íbúðir og verslunar- og þjónusturými. Áhersla er á uppbrot bygginga og fallega götumynd.
Ekki er ólíklegt að lóðirnar á móti sem lengi hafa verið í eigu Kaupfélags Kjalarnesþings muni jafnframt fara í skipulagsferli fljótlega þar sem gert er ráð fyrir uppbygginu íbúða. Þetta er jákvætt enda ljóst að þörf er á miklum fjölda íbúða inn á markað á næstu misserum.
Í síðasta Mosfellingi var fjallað um áhuga fjárfesta á mögulegri hóteluppbyggingu í Sunnukrika. Þegar Krikahverfið var skipulagt á sínum tíma var gert ráð fyrir verslun og þjónustu neðst í hverfinu. Þótti það skynsamlegt til að skýla íbúðabyggð fyrir Vesturlandsveginum og til að stækka miðbæjarsvæðið sem er skilgreint beggja vegna Vesturlandsvegar. Lóðirnar hafa verið auglýstar til sölu á vef Mosfellsbæjar svo árum skiptir en það er ekki fyrr en nú sem áhugi hefur skapast fyrir uppbyggingu þar. Ef af þessari uppbyggingu verður er það til mikilla bóta fyrir miðbæ í sveitarfélaginu okkar enda ljóst að í kringum hótel þrífst betur verslun og veitingastarfsemi.
Það er ánægjulegt til þess að hugsa að mikill áhugi er fyrir uppbyggingu í Mosfellsbæ, bæði íbúðir og verslunar- og þjónusturýma. Enda er gott að búa í Mosfellsbæ.

Bryndís Haraldsdóttir
Formaður skipulagsnefnar