Kvöld- og næturvakt Heilsugæslunnar færist í Kópavog

heilsugaeslan

Frá og með 1. febrúar 2017 mun Læknavaktin á Smáratorgi sinna allri vaktþjónustu í Mosfellsumdæmi eins og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.
Samkvæmt upplýsingum frá Heilsugæslunni er breytingin liður í að samræma vaktþjónustu heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar í Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Kjósarhreppi hafa eins og aðrir á höfuðborgarsvæðinu haft aðgang að vaktþjónustu Læknavaktarinnar en að auki hafa læknar á heilsugæslustöðinni í Mosfellsbæ verið með vaktþjónustu fyrir íbúa svæðisins utan dagvinnutíma og um helgar.

Ekki gert ráð fyrir vaktþjónustu
Í nýrri kröfulýsingu velferðarráðuneytisins fyrir rekstur heilsugæsluþjónustu, sem tekur gildi um áramótin, er ekki gert ráð fyrir að rekin sé vaktþjónusta heimilislækna á næturnar. Vaktþjónusta Læknavaktarinnar er opin á kvöldin og um helgar.
Samkvæmt kröfulýsingunni og nýju greiðslukerfi heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu, sem einnig tekur gildi um áramótin, standa heilsugæslustöðvar framvegis straum af kostnaði við kvöld- og helgarþjónustu fyrir skjólstæðinga sína. Sjúkratryggingar Íslands hafa samið við Læknavaktina ehf. um að taka rekstur þessarar þjónustu yfir á öllu svæðinu.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur í framhaldinu tilkynnt læknum á heilsugæslustöðinni í Mosfellsbæ að vaktþjónusta á vegum heilsugæslustöðvarinnar um nætur og helgar muni falla niður.

Læknarnir ekki sáttir
„Við fengum að vita þetta fyrir viku síðan en lögunum var breytt á mánudeginum eftir kosningar“, segir Þórdís Oddsdóttir yfirlæknir á Heilsugæslunni. „Það er póli­tík í þessu öllu og auðvitað snýst þetta um krónur og aura. Þá getur maður líka spurt sig hvers virði er eitt mannslíf? Við erum auðvitað langt frá því að vera sátt við þessar breytingar og ekkert samráð hefur verið haft við okkur læknana.
Heimilislækningar snúast í grunninn um samfellda þjónustu og að geta fylgt sjúklingnum eftir, það er það mikilvægasta.“
Sjálf mun Þórdís láta af störfum næsta vor en tekur þó fram að það tengist ekki beint breytingu á vaktþjónustunni. Um áramót mun Gríma Huld Blængsdóttir taka við stöðu yfirlæknis. „Ég hef áhyggjur af starfsfólkinu hér á Heilsugæslunni og hef sterkan grun um að fólk sé að hugsa sér til hreyfings.“

——
Almennur þjónustutími á Heilsugæslunni í Mosfellsbæ er frá 8 til 16 virka daga og verður boðið upp á síðdegisvakt milli kl. 16 og 18 virka daga.