Kuldinn

Heilsumolar_Gaua_8juni

Ég er búinn að vera að vinna með kuldann í vor. Kaldar sturtur og sjóböð eru í uppáhaldi. Köldu kerin í sundlaugunum eru líka hressandi. Mér finnst þetta hafa haft mjög góð áhrif á mig. Ég finn sérstaklega mun þegar ég er búinn að vera að puða og púla. Það er eins og þreyttur líkaminn endurnærist í kalda vatninu, lifni einhvern veginn við aftur.

Best finnst mér að enda á kaldri sturtu og finna líkamann hita sig upp aftur, hægt og rólega. En maður þarf að fara að rólega af stað og venja sig við kuldann. Það er mjög mikilvægt. Byggja upp kuldaþol. Æfa sig. Verða smám saman betri í að vinna með kuldann.

Það er mikilvægt að stýra önduninni, anda hægt og rólega og slaka á, annars á maður ekki möguleika í kalda vatninu. Maður þarf líka að stýra hugsunum sínum. Hugsa um hvað þetta sé gott fyrir mann, að kuldinn geri mann hraustari og hressari. Hafi góð áhrif á mann. Þannig hugsanir hjálpa manni að ná stjórn á önduninni. Það hjálpar ekki hugsa um hvað þetta sé nú hrikalega kalt og eigi eftir að verða erfitt og vont. Jafnvel þótt þetta sé erfitt til að byrja með. Eins og með allt sem er erfitt en gott fyrir mann, þá tekur líkaminn smám saman stjórnina og hvetur mann til dáða.

Daglegu köldu sturturnar voru ekki auðveldar fyrst en núna hlakka ég til þeirra. Hlakka til þess að finna ískalt og hressandi vatnið skella á mér. Tilfinning er góð á meðan ég er í kalda vatninu og frábær eftir á.

Sjórinn er svo alltaf bestur. Stútfullur af lífi og orku. Ég hlakka til að stinga mér í spegilslétta íslenska firði í sumar. Fyrir sunnan, austan, norðan og vestan. Njóta þess að svamla í ferskri náttúrunni í sumarsólinni. Njótum ferðalagsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 8. júní 2017