Köngulóarvefurinn

Heilsumolar_Gaua_12jan2017

Ég var að koma heim úr ferðalagi. Fór á staði sem ég hef ekki komið á áður og á staði sem ég hef áður heimsótt. Þetta var frábært ferðalag. Ég lærði margt nýtt og naut þess í botn að vera með mínum nánustu. Það hafði líka mikil áhrif á mig í ferðalaginu að fylgjast með því hvað við mannfólkið erum orðnir miklir netfíklar. Ríkir, fátækir, börn, unglingar, fullorðnir.

Hvert sem maður kemur í dag er síminn í aðalhlutverki. Alls staðar og alltaf er fólk í símanum. Wifi er töfraorð ferðalangsins í dag. Við verðum að vera tengd, alltaf. Símarnir eru frábærir á margan hátt. Við getum tekið myndir á þá, skapað góðar minningar. Notað þá í mikilvæg og gefandi samskipti. Við getum geymt og náð í mikilvægar ferðaupplýsingar í þeim. En við notum þá miklu meira til að deyfa okkur. Ég gægðist yfir öxlina á mörgum af þeim sem voru í símanum, langaði að sjá hvað þeir væru að stússast. Langflestir voru á Facebook, að rúlla í gegnum statusa. Augnaráðið tómt.

Fólk að passa sig að missa ekki af einhverju. Í stað þess að horfa í kringum sig, upplifa það sem virkilega var að gerast, tala beint við þá sem voru með þeim. Á staðnum. Ég er núna að loka Facebookinu mínu og hætta að nota fleiri netmiðla. Ætla að nota minn tíma í staðinn í hluti sem virkilega gefa mér orku. Íþróttir, útivist, lesa bækur. En þetta er ekki einfalt. Maður er eins og fluga í köngulóarvef, Facebook heldur utan um marga þræði í lífi manns með alla sína hópa og tengingar. Kallar sterkt á mann. Eins og eiturlyf á fíkil. Aðal­áskorunin er að halda í fólkið sem maður vill vera í samskiptum við án þess að þurfa að fara í gegnum Mark Zuckerberg og félaga. Það mun takast!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 12. janúar 2017