Kjarninn

Heilsumolar_Gaua_1feb

Ég datt inn á fyrirlestur hjá Sigríði Halldórsdóttur í síðustu viku. Hún var þar að tala um gerð þáttaraðarinnar Ævi sem var sýnd á RÚV í vetur. Frábærir þættir þar sem farið var í gegnum öll æviskeið manneskjunar og talað við fjölda Íslendinga á öllum allri. Sigríður spurði alla sem komu við sögu í þátttunum sömu spurningarinnar: „Hvað skiptir mestu máli í lífinu?“. Nánast allir svöruðu því sama: „Fólkið mitt.“ Ungir sem aldnir. Ég er á sömu blaðsíðu.

Það skiptir ekkert meira máli en fólkið manns, kjarninn. Sama hvar maður er staddur í lífinu. Þetta er gott að hafa í huga núna í upphafi árs þegar allir eru að vinna í sjálfum sér. Og allir sérfræðingar landsins í betrun manneskjunnar keppast við að koma boðskap sínum á framfæri. Vertu besta útgáfan af sjálfum þér, sigraðu sjálfan þig, komdu með á Everest, láttu drauma þína rætast og svo framvegis. Það er bæði jákvætt og hollt að vinna í sjálfum sér og ótrúlega öflug tilfinning að láta drauma rætast. En pössum okkur samt á því að gleyma ekki kjarnanum, því sem mestu máli skiptir. Fólkinu okkar.

Höfum fólkið okkar með í þessari vegferð, finnum leiðir, aðferðir, markmið og drauma sem fólkið manns getur tekið þátt í með manni. Eitthvað sem allir tengja við og hafa áhuga á. Í stað þess að nota alla orkuna bara í sjálfan sig. Æfa allan daginn til þess að verða besta útgáfan af sjálfum sér og láta fólkið sitt mæta afgangi. Þetta er ekkert alltaf auðvelt. Það hafa ekki allir sömu langanir og drauma. En ef kjarninn er sterkur, þá eigum við eitthvað sameiginlegt með fólkinu okkar sem væri gaman að efla og styrkja. Koma til framkvæmda. Láta rætast. Þannig að öllum líði betur og allir verði manneskjur á einhvern hátt. Möguleikarnir eru margir. Okkar er valið.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 1. febrúar 2018