Íþrótta- og tómstundastarf eldri borgara í Mosfellsbæ

Ásgeir Sveinsson

Þátttaka í íþrótta- og tómstundastarfi er holl og góð bæði líkamlega og andlega fyrir fólk á öllum aldri.
Mosfellsbær er Heilsueflandi samfélag þar sem heilsa og heilsuefling eru í forgrunni í allri stefnumótun og þjónustu. Nú þegar heimsfaraldurinn hefur geisað undanfarna mánuði hefur aldrei verið mikilvægara að ná til og hvetja fólk til þátttöku í íþróttum og tómstundum til að viðhalda góðri heilsu og koma í veg fyrir félagslega einangrun.

Fjölbreytt framboð
Í Mosfellsbæ er fjölbreytt framboð af íþrótta- og tómstundastarfi fyrir eldri íbúa þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Nú fer vetrarstarfið að hefjast og í skipulagningu er horft til þess að aðgengi og umgjörð geri sem flestum kleift að taka þátt og horft er til líkamlegra, andlegra og félagslegra þátta.
Meðal þess sem er í boði má nefna vatnsleikfimi í Lágafellslaug, leikfimitíma í World Class fyrir byrjendur og framhaldshópa í samstarfi við Mosfellsbæ, dansleikfimi að Varmá á miðvikudögum, útileikfimi hjá Höllu Karen, Boccia og Ringó, gönguhópa 3 x í viku og stólajóga á Eirhömrum.

Golfaðstaða hjá golfklúbbnum
Í lok sumars gerðu Mosfellsbær og Félag aldraðra í Mosfellbæ (FaMos) samning við Golfklúbb Mosfellsbæjar um að eldri borgarar sem eru skráðir í FaMos fái fría aðstöðu þrjá morgna í viku til að spila golf á púttsvæðum klúbbsins bæði á útisvæði og á innisvæðinu á neðri hæð golfskálans. Þetta er skemmtileg viðbót við fjölbreytta möguleika fyrir eldri íbúa í bænum til hreyfingar sem mun örugglega njóta vinsælda.

Handverk og aðrar tómstundir
Eldri íbúum stendur einnig til boða þátttaka í hópum og námskeiðum eins og t.d. gler- og leirgerð, bókbandi, tréútskurði, módelsmíði, listmálun, postulínsmálun, perluhópi og ýmsum fleiri stuttum námskeiðum. Spilamennska og söngstund liggja niðri eins og er vegna Covid, en vonandi verður hægt að hefja þá starfsemi sem allra fyrst.
Nýjasta verkefnið sem Mosfellsbær styrkir og er að komast á laggirnar er verkefni sem ber heitið „Karlar í skúrum“ og verður stofnfundur verkefnisins haldinn innan skamms, en þetta verkefni er aðeins fyrir karlmenn. Meiri upplýsingar um verkefnið má finna hér: www.raudikrossinn.is/karlariskurum
Ég hvet eldri íbúa í Mosfellsbæ til að kynna sér það framboð sem er af íþróttum og tómstundum í bænum og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.
Þátttaka gefur öllum aukna vellíðan, betri heilsu og góðan félagsskap. Í Mosfellsbæ er einnig starfandi öflugt félag eldri borgara (FaMos) þar sem fer fram fjölbreytt og skemmtilegt starf og hvet ég þá eldri Mosfellinga sem nú þegar eru ekki skráðir í félagið að skrá sig í þann skemmtilega félagsskap.

Frekari upplýsingar
Þeim sem vilja fá frekari upplýsingar um hvar sé hægt að skrá sig til þátttöku í íþróttum og tómstundum er bent á að hafa samband við forstöðumann félagsstarfsins, Elvu Björgu, í síma 586-8014 eða 6980090 eða senda tölvupóst á elvab@mos.is
Félagsstarfið er með facebook-síðu sem ber heitið „Félagsstarfið Mosfellsbæ“ og einnig má finna upplýsingar inn á síðunum www.famos.is og www.mos.is

Ásgeir Sveinsson
formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar