Hvíld

gaui7sept

Ég hef skrifað um svefn og hvíld áður, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Hugsanlega ætti ég alltaf að skrifa um mikilvægi þess að hvíla sig, það er svo mikilvægt. Sérstaklega á þessum árstíma þegar allt fer á flug.

Vinna, skóli, áhugamál, lífið. Ég fíla kraftinn í haustinu og finnst gaman að takast á við spennandi verkefni en ég finn líka að ég þarf að passa vel upp á mig. Ég svaf til dæmis ekki of vel síðustu nótt, hausinn vildi ekki slaka á, hann var of upptekinn við að velta fyrir sér komandi dögum. Hvað ég væri að að fara að gera og hvernig ég ætlaði að gera hlutina. Ástæðan fyrir þessu er sú að ég var ekki búinn að undirbúa mig nógu vel, leggja línurnar þannig að hausinn þyrfti ekki að standa í þessu næturbrölti.

Ég hefði betur fylgt eigin ráði, að skrifa nákvæmlega niður allt það sem er fram undan hjá mér og hvernig ég ætla að gera hlutina. Ég fór langt með það, en kláraði ekki verkefnið og því fór sem fór. En það þýðir ekki að velta sér upp úr þessari miður góðu hvíld, ég klára þennan dag eins vel og ég get, reyni að ná mér í einn lúr einhvers staðar yfir daginn og passa mig svo á að koma betur undirbúinn inn í nóttina í kvöld.

Hreyfing og líkamleg áreynsla skiptir sömuleiðis miklu máli varðandi góðan svefn, við sofum best þegar við erum búin að taka þokkalega vel á því yfir daginn. Nóg er af tækifærunum til þess hér í Mosfellsbæ. Að lokum langar mig að hvetja unga og efnilega íþróttakrakka í Mosfellsbæ að nýta sér til fullnustu þau frábæru tækifæri sem bjóðast í bænum. Gera enn betur í túninu heima áður grasið græna hinu megin við lækinn er skoðað.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 7. september 2017