Hver er framtíðin í flokkun á sorpi?

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Nú þegar árið 2018 er gengið í garð er verið að brýna fyrir öllum að minnka plastnotkun inn á heimilum.
Minn draumur er sá að Mosfellsbær fari alla leið í flokkun á sorpi því þetta er jú það sem koma skal og ekki mun umfang sorps minnka miðað við að íbúum bæjarins fjölgar, sem og íbúum landsins alls.

Kröfur hafa verið að aukast um flokkun almennt og þurfum við að gera enn betur í þessum málum, við gætum byrjað að flokka allt sorp, plast og allan lífrænan úrgang, einnig allt gler ásamt öðru endurvinnanlegu sorpi. Við ættum að taka til fyrirmyndar önnur bæjarfélög sem hafa stigið þetta skref til fulls og kynna okkur hvernig þau haga flokkuninni og fengið upplýsingar um hverjir séu helstu kostirnir við flokkun. Það þarf ekki alltaf að finna upp hjólið, nýtum okkur frekar reynslu og þekkingu í þessum málum hjá öðrum sveitarfélögum.

Mosfellsbær er nú þegar byrjaður að huga að aukinni sorpflokkun með því að hafa tvær sorptunnur við hvert hús, gráa fyrir almennt sorp og bláa fyrir pappírsúrgang svo sem tímarit, fernur, eggjabakka og bylgjupappa. Grenndargámar eru á nokkrum stöðum hér í Mosfellsbæ sem hægt er að nýta. Ég hvet svo alla hér í Mosfellsbæ að flokka.

Kristín Ýr Pálmarsdóttir.
Sækist eftir 5.-9. sæti í prófkjöri
Sjálfstæðisflokksins þann 10. febrúar.