Hjálparsími Rauða krossins 1717 og netspjallið

Hulda Margrét Rútsdóttir

Hulda Margrét Rútsdóttir

Ekkert vandamál er of stórt eða lítið fyrir Hjálparsímann 1717 og netspjall Rauða krossins.
Árlega berast um 15 þúsund mál inn á borð 1717 og eru þau af ýmsum toga.
Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri sjá um að svara símtölum sem berast og sem dæmi um það sem fólk hefur samband vegna, bæði fyrir sig eða aðstandendur, má nefna:
• Einmanaleika, þunglyndi, kvíða, sjálfsvígshugsanir, sjálfskaða
• Átraskanir, geðraskanir, sorgir og áföll
• Fjármál, námsörðugleika, húsnæðisvandamál, atvinnuleysi
• Rifrildi og samskipti, ástarmál, fordóma
• Barnaverndarmál
• Kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi, einelti og stríðni
• Heilbrigðisvandamál, neyslu og fíkn
• Kynferðismál, kynlíf, getnaðarvarnir, kynsjúkdóma
Þessi listi er á engan hátt tæmandi og hægt er að hafa samband vegna alls þess sem þér liggur á hjarta og fá sálrænan stuðning, ráðgjöf, hlustun og upplýsingar um þau úrræði sem í boði eru.
Síminn og netspjallið er opinn allan sólarhringinn og er ókeypis að hringja í 1717 úr öllum símum, líka þegar inneignin á símanum er búin. Fullum trúnaði og nafnleynd er heitið.

Þegar neyðarástand skapast gegnir Hjálparsími Rauða krossins 1717 hlutverki sem upplýsingasími, s.s. í jarðskjálftum eða eldgosum eða þegar rýma þarf stór svæði. Þar eru m.a. veittar upplýsingar til aðstandenda sem spyrjast fyrir um afdrif skyldmenna og vina.

Hulda Margrét Rútsdóttir
verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ