Hetjusögur og heilsa

Heilsumolar_Gaua_14nov

Við elskum hetjur. Elskum að sjá einstaklinga og hópa vinna til verðlauna. Gera meira en aðrir. Í vikunni var viðtal við unga konu í Fréttablaðinu. Í undirfyrirsögn sagði að hún hefði lokið framhaldsprófi í djasssöng fimm árum eftir að hún hóf nám og afrekað á sama tíma að ljúka mastersnámi og eignast tvö börn. Þetta er afrek, það er ekkert grín að koma svona miklu í verk á meðan maður berst sem foreldri í gegnum svefnlitlu næturnar sem óhjákvæmilega fylgja því að eiga ungbörn.

Á sama tíma og við elskum að heyra af fólki sem getur og gerir meira en við hin, þá tölum við um mikilvægi jafnvægis í lífinu. Að við þurfum að passa upp á heilsuna, hreyfa okkur, sofa vel, borða hollt, njóta þess að vera með fjölskyldu og vinum og sinna áhugamálunum.

Hvernig fer þetta saman? Að hafa brjálað að gera og koma mörgu í verk á sama tíma og passa upp á jafnvægið í lífinu? Ég hef farið í gegnum nokkur „brjálað að gera“ tímabil í lífinu, mislöng. Stundum lendir maður einhvern veginn í þannig tímabilum, en stundum er maður sjálfur arktitektinn að þeim. Eftir á að hyggja, þá get ég með fullvissu sagt að heilsufar mitt hefur aldrei verið verra en þegar sem brjálaðast var að gera. Ég á dagbækur sem sýna þetta svart á hvítu. Get flett í þeim og lesið hvað ég var lengi að drattast upp á Reykjafellið og hvað púlsinn fór hátt.

Alveg eins og ríkisstjórnir, þar á meðal okkar eigin, eru byrjaðar að tala um að nota vellíðan og velferð frekar en hagvöxt sem mælikvarða á velgengi þjóða, gæti verið gott fyrir okkur að líta í eigin barm og tala og haga okkur samkvæmt því sem við vitum að er best fyrir okkur. Skipta vellíðan inn fyrir brjálæðið.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 14. nóvember 2019