Heilsueflandi göngur

Katrín Sigurðardóttir

Katrín Sigurðardóttir

Enginn efast lengur um að hreyfing sé mikilvæg og hafi góð áhrif á heilsuna. Fjöldinn allur af rannsóknum liggja fyrir sem sýna fram á það. Rannsóknir staðfesta einnig að hreyfing þarf ekki að vera svo mikil til að skila bættri heilsu.
Annað sem rannsóknir sýna er að félagsskapur er líka mjög mikilvægur góðri heilsu, það er að vera í sambandi við aðra og fara út á meðal fólks. Til að viðhalda góðri heilsu þarf ástundun að vera reglubundin og allt árið um kring.
Allt of algengt er að fólk taki sig til og ákveði að fara í ýmis konar átök í alls kyns hreyfingu. Farið er bratt af stað en svo einhvern veginn endist maður ekki í þessu og fer aftur í sama farið. Slíkar skorpur eru ekki til þess fallnar að auka heilbrigði eða verða að lífstíl sem hægt er að tileinka sér í langan tíma.
Rauði krossinn í Mosfellsbæ stofnaði á sínum tíma gönguhóp sem við köllum Gönguvini. Markmiðið með hópnum er að ganga saman til heilsubótar og er gönguhópurinn fyrir alla sem sem vilja koma út á meðal fólks og hreyfa sig á sínum forsendum, á sínum hraða og í góðum félagsskap.

Gengið er tvisvar í viku í um það bil klukkustund á hraða sem hentar hverjum og einum. Ekki er verið að keppa við aðra eða klukkuna, heldur er það hverjum og einum í sjálfsvald sett hversu langt hann gengur og hversu hratt hann fer. Til þess að það sé hægt er valin gönguleið með mögleika á að snúa til baka eftir mislanga göngu. Þetta er kjörið tækifæri fyrir þá sem ekki treysta sér einir út að ganga af einhverjum ástæðum því Gönguvinir aðstoða hver annan ef á þarf að halda. Áherslan er á að ganga með hópnum á fyrirfram ákveðum tíma en það gerir það mun líklegra að maður drífi sig í af stað og haldi út að ganga reglulega til lengri tíma og geri gönguna að lífsstíl.

Nú er veturinn farinn að gera vart við sig með alls konar veðrum sem oft eru ekki hagstæð þeim sem vilja stunda göngur allt árið um kring. Margir hætta þá en dæmigert er að fólk taki sig til á vorin og byrji að stunda göngur en hætti svo aftur og ekki síst þegar vetur konungur gerir vart við sig. Þá er maður kominn í hið dæmigerða mynstur þar sem ekki er stunduð reglubundin hreyfing árið um kring. Til að gera okkur kleift að stunda göngur allt árið hafa Gönguvinir fengið leyfi til að ganga inni í fótboltahúsi Egilshallar á sínum reglubundna tíma þegar veður er óhagstætt. Þannig komust við hjá að berjast við veður og vinda eða leggja okkur í hættu í hálku og ófærð.
Gengið er á mánudögum og fimmtudögum klukkan 16.30 frá Rauða kross húsinu að Þverholti 7 Mosfellsbæ. Allir eru velkomnir þeim að kostnaðarlaus.

Katrín Sigurðardóttir
Ritari stjórnar Rauða krossins
í Mosfellsbæ og hópstjóri Gönguvina.