Heilsueflandi bærinn okkar

Úrsúla Jünemann

Úrsúla Jünemann

Við búum í fallegum bæ. Stutt er til fjalla og í fjöru. Allir sem vilja stunda útivist geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Talað er mikið um það að menn eigi að hreyfa sig daglega og þá sérlega börnin. Mér finnst til dæmis mjög hjákátlegt þegar menn mæta í íþróttamiðstöðvar og vilja helst keyra beint inn að inngangnum. Mæta menn ekki til þess að hreyfa sig? Er þá ekki í lagi að labba nokkur skref?
En talað um útivist: Ómældan fjársjóð er að finna hér í bæ. Og það besta er að það kostar ekki neitt. Ganga meðfram Leiruvoginum eða fara upp á eitthvað af okkar fjöllum í nágrenninu er besta líkamsrækt. Eða fá sér hjólreiðaferð á stígunum milli bæjarfélagana.
Veturinn er einnig mjög heillandi. Þeir sem eru sprækir geta skemmt sér á skíðum. Ein lítil toglyfta myndi nú ekki kosta mikið. Miður er að engin gönguskíðabraut er rudd um golfvallarsvæðið eins og í fyrra. Þetta var mjög skemmtilegt framtak. En gönguskíðabrautin um Tunguvöllinn er ekki spennandi, enda einungis 900 m á jafnsléttu og þjónar einungis þeim sem búa í Leirvogstungu.
Auðvitað gegna íþróttafélögin okkar mikilvægu hlutverki. En við eigum ekki alltaf að þurfa að borga fyrir það að við viljum hreyfa okkur. Þannig að allt sem stuðlar að hollri útiveru burtséð frá félagsaðild að einhverjum félögum þarf að styðja sérlega vel. Skógræktarsvæðin eiga að fá fjármagn til að tryggja áframhald á starfseminni, mest notuðu göngustígar upp á fjöllin okkar þurfa varanlegt viðhald.
Mosfellsbærinn okkar á að stefna áfram að því að vera heilsueflandi samfélag og hlúa sérlega að því að menn á öllum aldri uni sér vel í að vera úti í nátturunni.

Úrsúla Jünemann,
situr í umhverfisnefnd fyrir Íbúarhreyfingu