Heildarúttekt EFLU á Varmárskóla lokið

varmarskoliskyrla

Verkfræðistofan EFLA hefur lokið vinnu við heildarúttekt á öllu húsnæði Varmárskóla en verkfræðistofan hefur á síðustu tveimur árum unnið þrjár úttektir fyrir Mosfellsbæ á rakaskemmdum.
Niðurstöður sýnatöku EFLU gefa til kynna að almennt sé ástand húsnæðis Varmárskóla gott og jafnvel betra en sambærilegur húsakostur af sama aldri. Ekki er þörf á bráðaaðgerðum né lokun skólans en úrbóta er þörf og að hluta til umfram það sem þegar hefur verið ákveðið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mosfellsbæ.
Lagt er til að unnið verði að því að fjarlægja á nokkrum afmörkuðum stöðum rakaskemmd byggingarefni innandyra samhliða endurbótum á ytra byrði yngri deildar sem boðnar voru út í vor. Framkvæmdir eru við það að hefjast.

Endurnýjun á elstu húshlutum
Áður en EFLA lauk við heildarúttektina lágu fyrir áform um endurbætur á elstu húshlutum Varmárskóla og hófust þær framkvæmdir við skólaslit Varmarskóla.
Endurnýja á hluta þakefna og glugga auk múrviðgerða og málunar. Innandyra þarf að fara í úrbætur sem Efla leggur til þar sem rakaskemmd byggingarefni verða fjarlægð, steinslípað, hreinsað og málað.
Miðað er við að verktakar með sértæka þekkingu á vinnubrögðum við viðgerðir á rakaskemmdu húsnæði verði fengnir í verkefnið. Stærri aðgerðum á veðurkápu húsanna hefur verið áfangaskipt og forgangsraðað til næstu þriggja ára í samræmi við niðurstöður fyrirliggjandi úttekta.
Við þessa vinnu er mikilvægt að horfa til framtíðar varðandi endingu hins endurnýjaða húshluta og mæta kröfum byggingarreglugerðar í dag.

Ástand húsnæðis Varmárskóla sambærilegt eða betra en búast mátti við
Í heildarúttekt EFLU kemur fram að það er helst eldri hluti skólans sem þarfnast endurbóta. Ráðgjafar EFLU taka fram í niðurstöðum sínum að alltaf megi búast við að finna svæði með rakaskemmdum í eldra húsnæði en nú sé hins vegar þekking til staðar til að greina slík svæði og því hægara um vik að bregðast við áður en í óefni er komið.
Að mati EFLU hafa þær aðgerðir og endurbætur sem farið hafa fram síðustu tvö ár skilað Varmárskóla betri húsakosti. Enn eru þó nokkur viðfangsefni til staðar og heildarúttektin er góð leiðsögn um æskileg næstu skref.
Niðurstöður EFLU má bæði nýta til forgangsröðunar aðgerða og til leiðbeiningar um verklag við endurbæturnar. Lagt er til að forgangur verði settur í að bæta innivist og aðstöðu nemenda og starfsfólks.

Kynning heildarúttektarinnar
Samkvæmt upplýsingum frá Mosfellsbæ voru helstu niðurstöður heildarúttektar EFLU kynntar fyrir skólastjórum Varmárskóla, starfsmönnum skólans og stjórnendum Mosfellsbæjar sl. föstudag.
Skýrsla EFLU verður kynnt í bæjarráði þann 13. júní og skólasamfélaginu í heild þann 19. júní kl. 18.00 á opnum fundi í Varmárskóla sem jafnframt verður streymt á YouTube rás Mosfellsbæjar.
„Mosfellsbær fagnar því að heildarúttekt EFLU staðfesti að ástand húsnæðis Varmárskóla er almennt gott og jafnvel betra en við mátti búast. Við sinnum okkar húsnæði af kostgæfni og fylgjum góðum ráðum EFLU um æskileg næstu skref.
EFLA hefur nú veitt okkur leiðbeiningar um áherslur næstu mánaða og Mosfellsbær mun bregðast við þessum niðurstöðum af festu og einurð og hér eftir sem hingað til tryggja nemendum og starfsmönnum heilsusamlegt starfsumhverfi,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Niðurstaðan skýr
„Við starfsmenn Varmárskóla fengum kynningu á niðurstöðum heildarúttektar EFLU síðasta föstudag og hlökkum til að vinna með þeim og umhverfissviði Mosfellsbæjar að endurbótum á húsnæði skólans nú í sumar. Niðurstaðan er skýr um að hvorki reyndist þörf á bráðaaðgerðum né lokun skólans og okkar verkefni er að bæta við þeim úrbótaverkefnum sem ekki eru á áætlun sumarsins. Ég vona eindregið að allir aðilar geti sammælst um þau mikilvægu verkefni,“ segir Þórhildur Elfarsdóttir skólastjóri Varmárskóla.