Haldið upp á 70 ára afmæli Reykjalundar

Diddú situr í stjórn Hollvinasamtaka Reykjalundar.

Diddú situr í stjórn Hollvinasamtaka Reykjalundar.

Stærsta endurhæfingar- og meðferðarstofnun landsins, Reykjalundur, er 70 ára á þessu ári. Af því tilefni efna Hollvinasamtök Reykjalundar til hátíðar- og styrktartónleika í Grafarvogskirkju þriðjudagskvöldið 24. nóvember.
Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú, situr í stjórn hollvinasamtakanna. Hún hefur fengið einvalalið listamanna til liðs við sig, sem kemur fram á tónleikunum. „Þarna verða margar af okkar skærustu og sígildu stjörnum, Raggi Bjarna og Þorgeir Ástvalds, Hilmar Örn Agnarsson og kórar, Vala Guðna og Þór Breiðfjörð, Karlakór Reykjavíkur, Þórunn Lárusar, Palli bróðir og Monika, Gunni Þórðar, Bubbi, Egill Ólafs og svo náttúrlega ég,“ segir Diddú hlæjandi sínum dillandi hlátri. Kynnir á tónleikunum verður enginn annar en grínistinn Þorsteinn Guðmundsson.

Mikilvægur hluti af heilbrigðiskerfinu
„Það er mikilvægt að styrkja starfsemi þessarar mikilvægu endurhæfingarmiðstöðvar. Reykjalundur er á landsvísu mjög mikilvægur hluti af heilbrigðiskerfinu. Ég er ekki viss um að það geri sér allir grein fyrir því að meðalaldur þeirra sem fara þangað í margvíslega endurhæfingu er ekki nema um 50 ár. Þetta er fólk á vinnualdri sem lent hefur í alvarlegu slysi eða veikst lífshættulega og það er mjög mikilvægt að fólkið komist aftur út á vinnumarkaðinn. Það er mikilvægt fyrir sjúklinginn sjálfan, aðstandendur hans og samfélagið allt,“ segir Diddú.
„Ég hvet sem flesta til að koma og njóta ánægjulegrar kvöldstundar í Grafarvogskirkju og styrkja um leið gott málefni“ segir Diddú að lokum. Hægt er að kaupa miða á Miði.is og N1 í Mosfellsbæ.