Hafa fengið hlýjar móttökur og vilja hefja nýtt og betra líf

ugandaflottamenn_mosfellingur

Efri röð: Trust, Kenneth, Norah, Victor, Hakim. Neðri röð: Wahida, Haniem, Marion, Shadiah, Salma.

Mánudaginn 19. mars settust tíu flóttamenn að í Mosfellsbæ, hinsegin­ fólk frá Úganda sem hefur undanfarið dvalið í flóttamannabúðum í Kenía.
Þetta er í fyrsta sinn sem Mosfellsbær tekur formlega á móti flóttafólki. Í hópnum eru sex fullorðnir og fjögur börn, þar af eitt ungmenni, eldra en 18 ára. Samningur Velferðarráðuneytisins og Mosfellsbæjar lýtur að móttöku, aðstoð og stuðningi við hópinn á næstu tveimur árum.
Fyrstu dagarnir hafa verið mjög spennandi enda fólkið á framandi slóðum. „Við erum að reyna að venjast veðrinu,“ segir Hakim sem blaðamaður hitti ásamt hinum níu í Álafosskvosinni. „Íslendingar eru mjög almennilegir og vingjarnlegir, spjalla og hafa boðið okkur velkomin og við erum mjög þakklát fyrir það.“

Ætla að öðlast nýtt líf á Íslandi
Vissuð þið eitthvað um Ísland áður en þið komuð? „Daginn sem mér var sagt að við værum að fara til Íslands las ég ýmislegt á Google og lærði um menninguna á Íslandi. Ég lærði að höfuðborg Íslands væri Reykjavík, ég las um nýja forsetann og svoleiðis,“ segir Hakim.
Hver er helsti munurinn á Úganda og Íslandi? „Það er rosalega mikill munur, ég get ekki einu sinni borið þessi tvö lönd saman. Í Úganda er fólkið með svakalega fordóma fyrir samkynhneigðum og dómhart en það hef ég ekki upplifað á Íslandi síðan ég kom.“
Heldur þú að þér eigi eftir að líða vel hér á Íslandi? „Já, algjörlega. Ég er með miklar væntingar um að þetta skref eigi eftir að breyta lífi mínu. Ég ætla að eignast nýja vini og vonandi öðlast nýtt líf á nýjum stað. Ég hlakka til að byrja að læra íslensku og verða hamingjusamur á Íslandi.“
Þannig að þú átt ekki eftir að flytja aftur til Úganda í bráð? „Nei, þegar ég ákvað að flytja burt ákvað ég að ég myndi ekki snúa aftur.“

Fordómar á Íslandi á öðrum skala
Valgarð Már Jakobsson er einn sjálfboðaliða hjá Rauða krossinum sem aðstoðað hefur flóttafólkið. „Þetta er nýtt verkefni þar sem allir flóttamennirnir fá leiðsögumann sem á að vera stuðningur við að koma þeim inni í samfélagið. Við gerum eitthvað skemmtilegt með þeim og hjálpum þeim að fóta sig.
Það eru allir að stoppa þau og bjóða velkomin. Það er auðvitað fullt af fordómum hér á Íslandi, þau eru bara ekki farin að kynnast þeim ennþá. En auðvitað á allt öðrum skala heldur en heima hjá þeim þar sem þau eru bara stöðugt í lífshættu. Þetta er auðvitað mikil breyting fyrir þau og það hefur allt gengið mjög vel og allir hafa tekið þeim rosalega vel,“ segir Valgarð.

Vantar ennþá tvær íbúðir til leigu
Berglind Ósk er deildarstjóri á fjölskyldusviði Mosfellsbæjar og hefur komið að móttöku flóttafólksins. „Þetta hefur gengið mjög vel en auðvitað koma upp erfiðleikar, við erum t.d. ekki búin að finna íbúðir fyrir alla. Það vantar ennþá tvær íbúðir þannig að einhverjir eru enn á gistiheimilum.
Það er auðvitað margt sem þarf að huga að, t.d. heilsufarsskoðanir, skráning inn í landið og fá kennitölu, bankareikning o.fl.
Á næstu dögum fara þau í svokallaða samfélagsfræðslu, heimsækja lögreglu og slökkvilið og fleiri staði. Svo byrja þau öll í íslenskukennslu í næstu viku.
Þau hafa sætt ofsóknum af hálfu yfirvalda í sínu landi og því nauðsynlegt að öðlast traust aftur.“

Vilja byrja að vinna strax
Hvað langar þau að aðhafast hér á landi? „Þau spurðu strax hvenær þau gætu byrjað að vinna. Þau eru flest öll með reynslu af almennum vinnumarkaði og einhverja menntun. Þau vilja helst bara byrja strax. Börnin fara í skóla núna á næstu dögum en elsta stelpan er nú þegar aðeins byrjuð í framhaldsskólanum.
Eru þau komin til að vera eða líta þau á þetta sem tímabundið úrræði?
„Þau eru fyrst og fremst mjög þakklát fyrir að vera örugg. Í Úganda eru lögin þannig að samkynheigðir eru réttdræpir en auðvitað finnst öllum erfitt að yfirgefa heimalandið sitt. Það er ekkert fyrirséð að viðhorfið þar sé að fara að breytast.“
Tekur Mosfellsbær þátt í miklum kostnaði? „Þau fá fyrst um sinn fjárhagsaðstoð frá Mosfellsbæ sem er svo endurgreidd af ríkinu. Það er ákveðinn misskilningur að Mosfellsbær haldi þeim uppi. Þau eru hérna til að vera virkir samfélagsþegnar. Þau borga t.d. sjálf leigu á sínum íbúðum.“

Tenging í Samtökin 78
Berglind segir fólkið aldrei hafa séð snjó áður og jafnvel ekki sjó. „Þeim finnst fullkalt hér en þau eiga eftir að kynnast aðstæðum. Svo finnst þeim allir góðhjartaðir en þau eiga eftir að venjast því að geta verið þau sjálf. Þau upplifðu mikinn skort þegar þau voru á flótta í Kenía og urðu fyrir ofbeldi.“
Hópurinn er búinn að fara í Bókasafnið, Bónus og fleiri staði hér í Mosó og finnst það kostur að vera í smábæ nálægt höfuðborginni. „Það var einmitt eitt af því sem litið var til þegar Mosfellsbær var valinn að þau væru ekki að fara lengra út á land t.d. vegna tengingar í Samtökin 78.“
Þá hrósar Berglind sjálfboðaliðum Rauða krossins og segir þau mjög mikilvægan hlekk í öllu ferlinu.