Grænt skipulag í Mosfellsbæ

Samson Bjarnar Harðarson

Samson Bjarnar Harðarson

Mosfellsbær er einstaklega vel í sveit settur og býður íbúum sínum og nærsveitungum upp á frábæra útivistarmöguleika bæði innanbæjar sem og í umliggjandi landbúnaðar- og náttúrusvæðum.
Í ört vaxandi sveitarfélagi er hinsvegar hætta á að aðgengi að þessum útivistarsvæðum geti minnkað eða þau orðið óaðgengileg og að verðmæt svæði glatist eða verði brotin upp. Það er skylda sveitarfélagsins að tryggja íbúum sínum gott aðgengi og góð útivistarsvæði auk þess að stuðla að umhverfis- og náttúruvernd og góðri sátt við landeigendur og hagsmunaaðila.
Í samræmi við stefnu Mosfellsbæjar sem heilsueflandi samfélag er mikilvægt að vel sé hugað að þessum málum hjá sveitarfélaginu. Ein besta leiðin til þess er að gera svokallað grænt skipulag líkt og gert hefur verið víða á Norðurlöndunum og í Þýskalandi.

En hvað er grænt skipulag?
Grænt skipulag er heildstætt skipulag á öllum grænum svæðum sveitarfélaga frá litlum svæðum inn í þéttbýli til stórra náttúrusvæða. Skipulagið felst í að mynda samhangandi græn svæði tengd með göngu- og hjólreiðastígakerfi, nokkurskonar grænan vef.
Þessi græni vefur umlykur og umvefur byggðina og tengir hana saman við umliggjandi náttúru- og útivistarsvæði, landbúnaðarsvæði, fjöll, vötn, ár og strendur.
Við gerð græns skipulags er jafnframt mótuð stefna um ræktun og umhirðu grænna svæða svo sem almenningsgarða, skógrækt og vistheimt/landgræðslu og stjórn beitar. Einn mikilvægasti þáttur græns skipulags er að stuðla að bættri lýðheilsu og hvernig eigi að ná markmiðum sem getið er um í staðardagskrá 21.
Síðastliðið haust samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar að skoða kosti þess að gera grænt skipulag fyrir Mosfellsbæ. Tildrög þessa er að undirritaður lagði fram tillögu í skipulagsnefnd bæjarins að farið yrði í slíka vinnu.
Það er mikilvægt að Mosfellsbær fari í þessa vinnu af fullum þunga til að tryggja að bærinn okkar verði fjölskylduvænni, grænni og meira heilsueflandi sveitarfélag til að búa í.

Samson Bjarnar Harðarson
Fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulagsnefnd Mosfellsbæjar