Góð heilsa skiptir öllu máli

valagaui

Guðjón Svansson ráðgjafi og Vala Mörk Jóhannesdóttir Thoroddsen iðjuþjálfi eru eigendur Kettlebells Iceland.

Hjónin Guðjón og Vala stofnuðu fjölskyldufyrirtækið Kettlebells Iceland árið 2006 sem er óhefðbundin æfingastöð með samtengdri úti- og inniaðstöðu.
Í starfi sínu leggja þau áherslu á að fólk byggi upp alhliða styrk, úthald og liðleika á þann hátt að það nýtist vel í daglegu lífi. Eins veita þau ráðleggingar varðandi svefn og mataræði. Þau segja góða heilsu skipta öllu máli og og mikilvægt sé að viðhalda henni með reglulegri hreyfingu og heilbrigðum lífsstíl.

Vala er fædd í Reykjavík 3. desember 1970. Foreldrar hennar eru þau Dóra Thoroddsen bókasafnsfræðingur og Jóhannes Hörður Bragason flugvirki og flugvélstjóri. Vala á fjögur hálfsystkini samfeðra, Odd fæddan 1976, Loga fæddan 1985, Daisy fædda 2002 og Bo fæddan 2004.
Guðjón er fæddur í Reykjavík 21. september 1969. Foreldar hans eru þau Steinunn­ Guðjónsdóttir fjármálastjóri og Svanur Ingimundarson málarameistari. Guðjón á eina systur, Hrafnhildi, fædda 1974.

Eftirminnilegustu æskuminningarnar
Vala er alin upp í Vesturbænum en bjó í tvö ár í Bandaríkjunum á sínum yngri árum. Guðjón bjó sín fyrstu ár í Sæviðarsundinu en er alinn upp í Árbænum.
Ég spyr þau hver sé þeirra helsta æskuminning? „Líklega í flugvélinni á leið til Bandaríkjanna en ég man þó einnig eftir að hafa séð vörubíl velta á hringtorginu þar sem Þjóðarbókhlaðan er núna. Þannig var að ég var á leið heim úr leikskólanum með mömmu. Bíllinn var með fullan farm af möl sem dreifðist yfir stórt svæði. Man hvað mér fannst þetta svakalegt og ég vorkenndi bílnum ógurlega en ég pældi hins vegar ekkert í bílstjóranum,“ segir Vala og hlær.
„Ég man eftir því hvað það tók rosalega langan tíma að fara í sveitina þegar ég var gutti, sérstaklega á Strandirnar,“ segir Guðjón. „Í minningunni var þetta margra daga ferðalag á holóttum og hlykkjóttum malarvegum. Í dag er þetta nokkra tíma skreppur á malbiki.“

Fluttu til Danmerkur
Vala byrjaði skólagöngu sína í Tulsa í Oklahoma, þar sem allir dagar byrjuðu á fánahyllingu með hönd á hjarta. Eftir dvölina úti tók Vesturbæjar- og Hagaskóli við og svo Menntaskólinn í Reykjavík. Guðjón byrjaði sína skólagöngu í Langholtsskóla, Árbæjarskóla og fór svo í Menntaskólann við Sund.
En hvar skyldu þau hjón hafa kynnst? „Við hittumst árið 1991 á Hressó, sveitagaurinn úr Árbænum og borgargellan úr Vesturbænum og höfum verið saman síðan,“ segir Guðjón.
„Við fluttum til Odense í Danmörku árið 1993 og bjuggum þar til ársins 1999. Vala lærði þar iðjuþjálfun og starfaði við það líka. Ég starfaði í prentsmiðju bæjarblaðsins, Fyens Stiftstidende, en lærði svo alþjóðasamskipti og kláraði það fag með mastersgráðu.“

Okkur leið vel í Byggðunum
„Við eignuðumst tvo af fjórum sonum okkar í Danmörku. Viktor Gauta 1996 og Arnór Ingimund 1998. Við fluttum í Mosfellsbæinn árið 2000 og ég fékk vinnu á Reykjalundi,“ segir Vala.
Við leigðum hús á Neðribraut við Reykjalund og bjuggum þar til ársins 2004 en þá fluttum við í Krókabyggðina. Við eignuðumst þriðja strákinn okkar, Patrek Orra, 2002 og þann fjórða, Snorra Val, í ársbyrjun 2011.
Okkur leið vel í Byggðunum en fórum samt fljótlega að líta í kringum okkur eftir stærra húsnæði því fjölskyldan var orðin svo stór.“

Yndislegt að búa rétt fyrir utan höfuðborgina
„Eftir að hafa búið í Mosfellsbæ í 16 ár erum við orðin miklir Mosfellingar. Okkur hefur verið vel tekið og fólkið hér er frábært. Það er yndislegt að búa rétt fyrir utan höfuðborgina en vera samt svona nálægt.
Strákarnir okkar hafa allir æft með Aftur­eldingu, fótbolta, Taekwondo, frjálsar íþróttir, karate og handbolta. Þeim hefur alla tíð liðið ótrúlega vel hér og eiga góða vini.
Elsti sonur okkar flutti nú í haust til Kaupmannahafnar ásamt Elísu kærustu sinni, næstelsti er í MS, sá þriðji í Varmárskóla og stubburinn er í leikskólanum á Reykjakoti.“

Góður andi í gamla húsinu
„Árið 2006 stofnuðum við hjónin Kettlebells Iceland,“ segir Guðjón. „Við byrjuðum með æfingar í bardagaklúbbnum Mjölni, fluttum okkur svo á Ylströndina í Nauthóls­vík 2011 en enduðum svo með fyrirtækið upp í Mosfellsbæ árið 2012.
Við byrjuðum fyrst með útiæfingar við Dælustöðuna. Eftir að við keyptum okkur hús við Engjaveginn árið 2012 þá bjóðum við upp á æfingar þar bæði inni og úti en við breyttum stórum bílskúr í æfingasal. Það er góður andi í gamla húsinu sem var byggt árið 1955 fyrir bormeistara Orkuveitunnar.“
Fyrir utan að þjálfa fólk bæði á morgnana og seinnipartinn þá sinna þau hjónin öðrum verkefnum líka. Guðjón starfar við fyrirtækjaráðgjöf hjá Hagvangi og Vala starfar hjá Postura.is tvo daga í viku þar sem hún aðstoðar Jóhannes Sveinbjörnsson við stoðkerfismeðferð. Sameiginlegt áhugamál þeirra snýr að hreyfingu og heilsu ásamt því að ferðast með börnunum sínum.

Skyndihjálp ætti að vera kennd í skólum
„Ég verð Völu ævinlega þakklátur en hún bjargaði lífi mínu þann 13. septem­ber s.l. Við vorum í afmælismat hjá tengdó og ég var að steikja þykkar nautalundir. Ég skar smá bita af til að smakka og þá vildi ekki betur en svo að bitinn sat pikkfastur í hálsinum á mér og kom í veg fyrir að ég gæti andað.
Vala, sem er vel að sér í skyndihjálp, tók nokkur hressileg Heimlich tök á mér og bankaði á bakið. Bitinn kom ekki strax en hún gafst ekki upp og hélt áfram. Að lokum spýttist bitinn út og ég náði andanum aftur.
Þetta var sterk upplifun fyrir okkur því maður hefur ekki margar mínútur í svona aðstæðum. Þetta fær mann til að meta lífið enn meira og hætta að láta smáatriði fara í taugarnar á sér.
Skyndihjálp ætti að vera skyldufag í öllum skólum og jafnvel kennd á vinnustöðum. Maður veit nefnilega aldrei hvenær maður þarf á þessari kunnáttu að halda.
Rauði krossinn er með námskeið allt árið, við hvetjum alla til að skella sér.“

Mosfellingurinn 20. október 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs