Gefum okkur tíma

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Það er auðvelt í amstri hversdagsins að detta í sjálfstýringuna og sérstaklega í kringum hátíðirnar. Mikilvægt er að við gefum sjálfum okkur þá gjöf að staldra við, draga djúpt andann og taka inn augnablikið. Upplifa og njóta líðandi stundar.

Veitum athygli
Allt sem við veitum athygli vex og dafnar. Veitum börnunum okkar óskipta athygli, hlustum á þau, verum áhugasöm og tökum virkan þátt í lífi þeirra. Þannig veitum við þeim gott veganesti út í lífið og munið líka að við fullorðna fólkið erum þeirra helstu fyrirmyndir. Veitum sjálfum okkur athygli, leyfum okkur að njóta og slaka á. Við þurfum ekki að gera allt í einu, einbeitum okkur að því sem við erum að gera þá stundina og veitum því athygli. Finnum fyrir eigin líðan og tilfinningum án þess að dæma.

Lifum og njótum
Gefum okkur tíma með sjálfum okkur þar sem við fjarlægjum okkur frá áreiti hvers konar. Við getum t.d. farið í göngu, fundið hvernig veðrið leikur við andlitið, andað að okkur hreina loftinu, upplifað fegurð náttúrunnar, hvernig við segjum skilið við áhyggjur og byggjum upp nýja orku innra með okkur. Hlustum á ástvini okkar og veitum þeim óskipta athygli án þess að koma með ráð, stundum þarf nefnilega bara einhvern til að hlusta. Skipuleggjum samverustundir með fólkinu okkar, gerum eitthvað skemmtilegt og ekki er verra að hlæja saman.

Gerum góðverk
Góðverk er hægt að gera á margvíslegan hátt, allt eftir efnum og aðstæðum hverju sinni. Gefum af sjálfum okkur, við höfum öll ýmislegt að gefa. Ræktum ástvini okkar og heimsækjum og/eða spjöllum við þá sem eru einmana. Við getur látið eitthvað af hendi rakna til þeirra sem minna hafa á milli handanna. Aðstoðum aðra, þarf ekki að vera meira en að halda hurð opinni! Bjóðum góðan daginn og brosum – góðverk þurfa nefnilega ekki að kosta neitt en gleðja bæði þann sem nýtur og þann sem gefur.

Á þessum nótum óskum við, sem stöndum að Heilsueflandi samfélagi í Mosfellsbæ, ykkur gleðilegra jóla og hamingju og gleði á komandi ári um leið og við þökkum hjartanlega fyrir samstarfið á liðnu ári. Lifið heil!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsu­fræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ