Gefa út sína fyrstu plötu

Ísak Andri, Þorsteinn, Kristján Ari og Nói Hrafn.

Rokkhljómsveitin Red Line hefur gefið út sína fyrstu hljómplötu á Spotify.
Hljómsveitin er skipuð fjórum ungum og efnilegum Mosfellingum, þeim Kristjáni Ara Haukssyni söngvari, Nóa Hrafni Atlasyni bassaleikara, Ísaki Andra Valgeirssyni gítarleikara og trommaranum Þorsteini Jónssyni.
„Við stofnuðum hljómsveitina í janúar og sömdum þrjú lög fyrir Músík­tilraunir en vegna COVID19 var hætt við keppnina í ár. Þarna kviknaði neisti hjá okkur, við höfum allir einbeitt okkur að þessu síðan og nú er árangurinn að koma fram með þessari plötu,“ segir Kristján Ari.

Spenntir að fá viðbrögð
Á plötunni má finna átta frumsamin lög og nefnist platan 13:18. „Nafnið 13:18 varð hugmynd vegna þess að við leigðum hús á Laugaveginum til að semja og spila lög. Fyrsta daginn þar dó veggklukkan okkar á tímanum 13:18 svo öll lögin okkar eru samin á þeim tíma í þessu húsi, sem er einnig húsið framan á plötuumslaginu.
Við höfum fengið mjög góð viðbrögð, við sjáum að þeir sem hafa hlustað á plötuna gera það aftur og aftur. Nú þurfum við bara að gera okkur sýnilega og fá fleiri til að hlusta og erum spenntir að fá meiri viðbrögð,“ segir Kristján Ari.
Lagið Summer Nights er mest spilaða lag hljómsveitarinnar og hefur sveitin gefið út myndband með því lagi sem meðal annars er tekið upp hér í Mosfellsbæ.