Fyrsta líkamsrækt barnsins

ungbarnasund

Í Mosfellsbæ er boðið uppá ungbarnasund á tveimur stöðum, hjá Snorra Magnússyni á Skáltúni og hjá Ólafi Ágústi Gíslasyni á Reykjalundi.
Þeir Snorri og Óli eru báðir menntaðir íþróttakennarar, Snorri sem er frumkvöðull á þessu sviði hefur verið með ungbarnasund frá árinu 1990 og Óli frá árinu 2001
„Það er talið að ungbarnasund hafi byrjað árið 1962 í Ástralíu en ég vil meina að það hafi byrjað í Mosfellsbæ.
Í Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxnes sem fyrst var gefin út 1934-5 er samtalskafli milli Ólafs í Ystadal og Guðnýjar ráðskonunnar frá Útirauðs­mýri. Þar segir Ólafur það kunni að vera sannað að ungbörn geti synt af sjálfsdáðum séu þau sett ofan í vatn. Sem segir okkur það að Halldór vissi ótrúlega margt sem hann lætur svo koma svona fram í bókum sínum,“ segir Snorri.

Eflir líkamlegan og andlegan þroska
Ungbarnasund nýtur mikilla vinsælda hjá foreldrum en helsti tilgangur og markmið með ungbarnasundi er að veita markvissa örvun barna á aldrinum 0-2 ára, aðlagast vatninu, efla líkamlegan og andlegan þroska og þjálfa ósjálfráð viðbrögð.
„Ég kynntist ungbarnasundi fyrst þegar ég fór með strákinn minn í sund til Snorra, en svo lærði ég í Noregi og hef starfað við kennslu á Reykjalundi frá árinu 2001,“ segir Óli Gísla. „Ég segi alltaf að ungbarnasund sé fyrsta líkamsrækt barnsins. Það er heil­mikil örvun sem fer fram bæði fyrir hjartað, lungun og æðakerfið. Æskilegasti aldurinn til að byrja með börn í ungbarnasundi er í kringum þriggja mánaða en það er alveg hægt að byrja bæði með eldri og yngri börn, nálgunin er þá bara öðruvísi.“

Unnið með tengslamyndun og traust
„Það er mjög gaman að fylgjast með börnunum í sundinu en við vinnum með fjölmarga þætti eins og jafnvægi, samhæfingu, eftirtekt og athygli,“ segir Snorri. „Við vinnum mikið með söng og tengslamyndum milli foreldra og barns og ekki síst traust.
Það sem er mikilvægast er vellíðan bæði foreldranna og barnanna í ungbarnasundinu, samveran og félagsskapurinn. Ég veit til þess að í sundlauginni hjá mér hafa myndast góð vináttusambönd. Ég er farin að fá til mín foreldra sem sjálfir voru hjá mér í ungbarnasundi, sem mér finnst mjög skemmtileg staðreynd.“

Slógu í gegn á samnorrænni ráðstefnu
Árið 1994 stofnuðu ungbarnasundkennarar félagið Busla en þar eru þeir Óli og Snorri báðir virkir félagsmenn.
„Það er gaman að segja frá því að annað hvert ár er haldin samnorræn ráðstefna ungbarnasundkennara. Árið 2006 héldum við þessa ráðstefnu hér á landi. Við Snorri töluðum við Ragnheiði Ríkharðs sem þá var bæjastjóri og spurðum hana hvort að Mosfellbær vildi með einhverjum hætti styrkja okkur. Það varð úr að framlag Mosfellsbæjar til þessarar ráðstefnu var að Diddú kom og söng ásamt undirleikara. Við slógum algjörlega í gegn og það er enn verið að tala um þetta atriði,“ segir Óli.