Fyrsta hjálp – er þín fjölskylda tilbúin?

Signý Björg Laxdal

Signý Björg Laxdal

Oft eru það aðstandendur og almenningur sem eru fyrstu viðbragðsaðilar á slysstað og börn eru ekki síður líkleg til þess.
Í fyrra var skyndihjálparmaður ársins hjá Rauða krossinum Unnur Lísa Schram, sem bjargaði lífi eiginmanns síns þegar hann fór í hjartastopp. Árið þar á undan var það hin 7 ára gamla Karen­ Sæbjörg Guðmundsdóttir, sem bjargaði lífi móður sinnar. Slys eða veikindi gera ekki boð á undan sér.
Í dag er fræðsluefni um skyndihjálp ótrúlega aðgengilegt. Hægt er að heimsækja www.skyndihjalp.is og taka stutt próf um þína þekkingu. Það er mælt með því að fara á skyndihjálparnámskeið á tveggja ára fresti að jafnaði, svo ef það er lengra liðið frá því að þú sóttir síðast námskeið, þá er tími til að huga að endurnýjun.
Ég veit, ég veit – ótrúlega margendurtekin mantra um mikilvægt málefni sem allir ætla að gera, bara ekki einmitt núna. En það er gott að hafa þessa hluti á hreinu, mæta í nokkra klukkutíma, drekka lítilfjörlegt kaffi og bjarga kannski lífi einn daginn. Skyndihjálparnámskeið eru haldin reglulega á höfuðborgarsvæðinu en allar upplýsingar má nálgast á heimasíðu Rauða krossins á Íslandi: raudikrossinn.is.
Þar að auki gaf RKÍ út skyndihjálpar-app fyrir nokkrum árum þar sem hægt er að rifja upp helstu bjargráð og jafnvel grípa til í neyð, þótt auðvitað sé best að þurfa þess ekki. Auðvelt er að sækja appið (eða fá börnin til þess) og kynna sér efnið.
Krakkar eru merkilega snjallir og læra hraðar en amma og afi vilja kannski viðurkenna. Það er því ekki síður mikilvægt að leyfa börnunum að vera með og fara saman yfir helstu viðbrögð.
Að lokum vil ég minna á að námskeiðið Börn og umhverfi verður haldið hjá Rauða krossinum okkar í Mosfellsbæ 8. – 11. maí næstkomandi. Námskeiðið er ætlað ungmennum 12 ára og eldri (fædd 2005 og fyrr) og fer vel í umgengni barna og slysavarnir.
Þetta er tilvalið fyrir þau sem ætla að sjá um og passa börn í sumar og síðar. Frekari upplýsingar má finna hjá deildinni okkar á Facebook eða hjá starfsmanni okkar hulda@redcross.is

Allra bestu sumarkveðjur, Signý Björg Laxdal,
varaformaður Mosfellsbæjardeildar RKÍ.