Frárennsliskerfi laugarinnar á Reykjalundi verður breytt

Mengun í Varmá rakin til klórvatns úr setlaug sundlaugarinnar á Reykjalundi

Mengun í Varmá er rakin til klórvatns úr setlaug sundlaugarinnar á Reykjalundi.

Eins og kunnugt er varð fiskidauða vart í Varmá um miðjan júlí og er nú orðið ljóst að ástæðu hans megi rekja til klórvatns í setlaug við sundlaug Reykjalundar sem tæmd var vegna nauðsynlegra skipta á sandi í sandsíum laugakerfisins þann 13. júlí.
Gerðar verða breytingar á frárennslismálum sundlaugar Reykjalundar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjalundi.

Mengunarslys endurtaki sig ekki
Þegar sundlaug og setlaug Reykjalundar voru byggðar á sínum tíma voru frárennslismál laugarinnar hönnuð með þeim hætti að affall er leitt í ofanvatnskerfi bæjarins í stað fráveitu þess.
Á starfstíma sundlaugarinnar, sem tók til starfa árið 2000, hefur ekki verið skipt um sand í síum lauganna fyrr en nú og var stjórnendum Reykjalundar ekki ljóst að atvik sem þetta gæti átt sér stað vegna viðhalds á laugakerfinu.
Nú liggur fyrir að gera þarf ráðstafanir til að breyta fráveitumálum laugarinnar til að slíkt mengunarslys endurtaki sig ekki. Að því verkefni verður nú unnið í samstarfi Reykjalundar og bæjaryfirvalda sem unnið hafa mikið starf í því skyni að rekja uppruna mengunarinnar síðan atvikið varð.