Framtíð Hlégarðs

Björk Ingadóttir

Björk Ingadóttir

Menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar vinnur nú að endurskoðun á nýtingarmöguleikum á félagsheimilinu Hlégarði í komandi framtíð.
Liður í þeirri vinnu var opinn íbúafundur í Hlégarði 16. október 2018 þar sem Mosfellingum gafst kostur á að koma sínum tillögum á framfæri. Hlégarður var vígður við hátíðlega athöfn 17. mars 1951 og hélt Halldór Laxness þar ræðu, hrósaði húsinu og sagði meðal annars: „Slíkt hús sem þetta á að vera sveitúngum skjól og afdrep sem þeir leiti til úr stormviðrum hversdagslífsins og finni skemmtun og menntun.“

Húsið hefur í gegnum tíðina þjónað sínum tilgangi þar sem ýmis starfsemi hefur verið rekin. Hins vegar eru flestir sammála um það í dag að húsið hafi undanfarið ekki staðið undir því að vera menningarhús Mosfellsbæjar. Skoðanir um einsleitni viðburða í Hlégarði og takmarkað aðgengi hafa einkennt umræðuna.
Það komu margar góðar hugmyndir fram á opna íbúafundinum og virðast Mosfellingar bera sterkar taugar til Hlégarðs og hafa mikinn áhuga fyrir því að skoða nýtingarmöguleika hússins og hvernig megi koma upp reglulegri viðburðadagskrá sem höfði til allra bæjarbúa.
Í beinu framhaldi voru ráðgjafar KPMG fengnir til þess að taka út starfsemina í Hlégarði og leiða fram greiningu á valkostum um rekstrarform Hlégarðs með tilliti til markmiða Mosfellsbæjar um menningarstarfsemi í húsinu. Lagt var mat á fjóra ólíka valkosti á rekstrarformi Hlégarðs:
A: Áframhaldandi útleiga með úrbótum, B: Mosfellsbær annast rekstur Hlégarðs, C: Samstarf um rekstur og D: Hlégarður auglýstur til sölu.
Menningarmálanefnd hefur lagt til að farin verði leið C sem gengur út á sameiginlegan rekstur utanaðkomandi rekstraraðila og bæjarins, en hver valkostur var metinn út frá kostum og annmörkum rekstrarfyrirkomulags fyrir Mosfellsbæ ásamt væntri fjárþörf.

Sólveig Franklínsdóttir

Sólveig Franklínsdóttir

Forstöðumanni bókasafns- og menningarmála hefur verið falið að gera tillögu að útfærslu þeirrar leiðar sem felur m.a. í sér að Mosfellsbær leggi til viðburðastjóra sem skipuleggi og byggi upp reglubundna menningarstarfsemi í Hlégarði og yrði sú staða auglýst síðar til umsóknar. Samhliða þessu skipi menningar- og nýsköpunarnefnd þriggja manna hóp skipaðan fólki tengdu viðburðahaldi sem hittist a.m.k. fjórum sinnum á ári og móti hugmyndir um viðburði sem eru til þess fallnir að efla starfsemi Hlégarðs með það að markmiði að auka vægi „mosfellskra“ viðburða.

Á síðustu fimm árum hefur verið unnið eftir þeirri stefnumörkun varðandi húsnæði Hlégarðs að endurnýja allt ytra byrði hússins og er þeirri vinnu nú lokið. Það var beðið með umbreytingu á innra rými hússins þar til fyrir lægju tillögur að nýtingu þess í framtíðinni. Nú liggja þær tillögur fyrir og því hefur forstöðumanni bókasafns og menningarmála jafnframt verið falið að hefja viðræður við núverandi rekstraraðila um fyrirhugaðar breytingar á samningi. Til að unnt verði að byggja upp áformaða menningarstarfsemi í Hlégarði er skynsamlegt að gera ráð fyrir því að leigusamningur þurfi að ná til allt að fimm ára. Forstöðumanni bókasafns og menningarmála hefur einnig verið falið að ræða við umhverfissvið um val á arkitekt til að vinna tillögur að breytingum á innra útliti Hlégarðs og gera tillögu að áfangaskiptingu breytinganna. Tillögurnar eru ekki bindandi, einungis leiðbeinandi um leið og þær gefa betri sýn á möguleikana og auðvelda ákvarðanatöku og koma í veg fyrir tvíverknað.

Misjafnar skoðanir eru á því hvernig skal ráðast í breytingar. Sumir vilja breyta húsinu þannig að það nýtist betur án þess að skemma söguna en aðrir vilja ekki að sagan hefti framkvæmdir. Áhersla verður lögð á að finna samræmt heildaryfirbragð og skipulag hússins með því móti að sem flestir geti nýtt sér aðstöðuna og mæta þannig þörfum ólíkra hópa sem vantar húsnæði, t.d. kórar, leikfélög, viðburðir á vegum bæjarins, tónleikahald, ráðstefnur o.fl.
Enn viðameiri framkvæmdir þyrfti svo að fara í ef starfrækja á kaffihús í Hlégarði, byggja við alhliða tónlistarhús eða færa leikfélag inn í Hlégarð. Sérstök áhersla verður lögð á að gæta að heildaryfirbragði breytinganna af virðingu við höfundareinkenni byggingarinnar og sögu þess um leið og gætt verði að notagildi og framtíðarmöguleikum.

Sagan sýnir að það tekur tíma að byggja upp farsæla menningarviðburði í Mosfellsbæ. Óháð rekstrarfyrirkomulagi þarf að fara í úrbætur á húsnæðinu að innan ef Hlégarður á að verða fyrirmyndar félagsheimili og menningarhús. Á næstunni verður farið í að hreinsa allt drasl út úr húsinu og lagfæra flygilinn svo eitthvað sé nefnt.
Menningar- og nýsköpunarnefnd fagnar því að gert verður ráð fyrir tilgreindum úrbótum á húsnæði Hlégarðs í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar á næstu árum.
Með ósk um gleðilegt sumar og bjarta framtíð Hlégarðs fylgir hér vísa til gamans sem samin var og flutt við vígsluna árið 1951 en við vitum því miður ekki hver höfundur hennar er:

Hús var byggt við Héraðsbraut,
Mosfellshreppur á það.
Það ætti að standa ofan í laut,
Svo enginn þyrfti að sjá það.

Björk Ingadóttir, formaður Menningar- og nýsköpunarnefndar.
Sólveig Franklínsdóttir, varaformaður Menningar- og nýsköpunarnefndar.