Framsókn fyrir framtíðina

Eygló Harðardóttir

Eygló Harðardóttir

Undirstaðan fyrir öflugt velferðarsamfélag hefur alltaf verið húsnæðisöryggi. Það hefur sjaldan verið augljósara en eftir efnahagshrunið, þegar fjölmargar fjölskyldur misstu húsnæði sitt og voru á vergangi.
Þegar ég tók við ráðherra­embætti vorið 2013 hét ég því að nýtt húsnæðiskerfi yrði forgangsmál á kjörtímabilinu. Árangur þeirrar miklu vinnu er nú að koma í ljós.

Lög um almennar íbúðir voru samþykkt síðasta vor og í tengslum við kjarasamninga var lofað að fjölga almennum íbúðum um 2300 á fjórum árum. Með lögunum er komið á nýju félagslegu húsnæðiskerfi þar sem ríki og sveitarfélög munu veita stofnframlög til fjölgunar leiguíbúða á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa, þ.m.t. námsmenn, ungt fólk, aldraða, fólk í félagslegum og fjárhagslegum vanda, fatlað fólk og öryrkja.

Þessi barátta er þegar farin að hafa mikil áhrif. Gengið hefur verið frá fjármögnun Íbúðalánasjóðs á 400 nýjum íbúðum og herbergjum fyrir námsmenn á vegum Félagsstofnunar stúdenta á grundvelli hinna nýju laga. Þá eru ASÍ og BSRB að hefja uppbyggingu á 1.100 íbúðum í Reykjavík og Hafnarfirði og fjölmörg sveitarfélög og félagasamtök eru í viðræðum við Íbúðalánasjóð um byggingu á leiguíbúðum um allt land, m.a. í Suðvesturkjördæmi.

Ný lög um Fyrstu fasteign munu einnig hjálpa fólki að leggja til hliðar svo fólk geti eignast sitt eigið húsnæði þegar það vill. Þetta nýja húsnæðiskerfi hefur þannig áhrif á fleiri en þá sem minnst hafa. Þrýstingur á allan markaðinn mun minnka með auknu framboði á húsnæði, sem er ástæða þess að sérstök áhersla er lögð á nýbyggingar.

Þá mun nýtt húsnæðisbótakerfi sem tekur gildi um áramótin styðja enn frekar við leigjendur. Þar munu húsnæðisbætur ekki skerðast við að barn verður 18 ára og börn einstæðra foreldra verða heimilismenn hjá báðum foreldrum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um umgengni.

Þannig sköpum við raunverulegt húsnæðisöryggi til framtíðar, fyrir alla. Þannig sækjum við fram fyrir heimilin.

Eygló Harðardóttir
1. sæti á lista Framsóknarmanna
í Suðvesturkjördæmi