Frábært tímabil hjá blakstelpunum

Bikar-, deildar og Íslandsmeitarar í blaki. Mynd/RaggiÓla

Bikar-, deildar og Íslandsmeitarar í blaki. Mynd/RaggiÓla

Frábæru keppnistímabili er lokið hjá stelpunum í úrvalsdeildarliði Aftureldingar í blaki en Aftureldingarstelpur eru þrefaldir meistarar og unnu alla titla sem í boði voru.
Veturinn hefur verið langur en auk þess að taka þátt í mótum á Íslandi, tók liðið þátt í riðlakeppni NEVZA (Norður-Evrópukeppni félagsliða) en leikið var í Bröndby í Danmörku í nóvember. Liðið lék við tvö bestu lið Danmerkur og Noregsmeistarana og átti mjög góða leiki á mótinu. Reynslan af þessu móti átti eftir að nýtast liðinu mjög vel á keppnistímabilinu.
Úrslitahelgin í Bikarkeppni Blaksambands Íslands var leikin í marsmánuði og lék Afturelding við lið KA í undanúrslitum og vann öruggan sigur 3-0. Í úrslitum léku þær við lið Þróttar frá Neskaupsstað og vann Afturelding 3-0 sigur þar sem Afturelding hafði yfirhöndina allan tímann en Þróttarar voru aldrei langt undan. Að leik loknum var Thelma Dögg Grétarsdóttir valin leikmaður úrslitaleiksins og fékk að launum Gullbolta Mizuno.

Hörð barátta í deildinni
Deildarkeppnin var jöfn í Mizunodeild kvenna og fyrir lokaumferðina áttu þrjú lið tækifæri á að verða meistarar. Með sigri á Þrótti Neskaupsstað tryggðu Aftureldingarkonur sér deildarmeistaratitilinn og um leið heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni.
Í úrslitakeppninni vann Afturelding lið Stjörnunnar í tveimur leikjum og lék við HK, en þær höfðu náð að sigra Aftureldingarkonur árið áður í keppninni um Íslandsmeistaratitilinn.
Afturelding hóf úrslitaeinvígið með góðum sigri að Varmá en tapaði síðan leik 2 sem leikinn var í Fagralundi. Leikur 3 var eign Aftureldingar frá upphafi og auðveldur 3-0 sigur. Úrslitin réðust í leik 4 í Fagra­lundi, Aftureldingarkonur komust í 2-0 en HK jafnaði í 2-2. Úrslitin réðust því í oddahrinu, líkt og árið á undan, en núna voru það Aftureldingarkonur sem stóðu uppi sem sigurvegarar.

Handahafar allra titlana
Frábært tímabil hjá stelpunum okkar á enda þar sem þær eru nú handhafar allra titlanna á Íslandi.
Auk þess að að ná þessum frábæra árangri þá voru þær Fjóla Rut Svavarsdóttir, Kristín Salín Þórhallsdóttir, Kristina Apostolova og Thelma Dögg Grétarsdóttir valdar í Úrvalslið Mizunodeildarinnar.
Thelma Dögg Grétarsdóttir var einnig kjörin besti leikmaður Mizunodeildar kvenna en hún átti frábært tímabil þar sem hún varð stigahæst í uppgjöfum og sókn ásamt því að vera stigahæsti leikmaður deildarinnar.