„Fólk vill eiga kost á hollari máltíðum“

Miklar breytingar hafa orðið í Háholtinu.

Miklar breytingar hafa orðið í Háholtinu.

Í sumar urðu breytingar á rekstri Snælandvideo sem nú heitir Ice boost and burgers. Vídeóspólurnar fengu að víkja fyrir metnaðar­fullum safa- og samloku­bar.
Hjónin Ásta Björk Benediktsdóttir og Gunnlaugur Pálsson sem eru búin að vera með þennan rekstur í 15 ár eru ánægð með breytingarnar. „Ég var búin að ganga með þessa hugmynd í maganum í langan tíma. Það hefur verið mikil umræða um heilsu­eflandi samfélag hér í Mosfellsbæ og fólk vill eiga kost á holl­ari máltíðum,“ segir Ásta.

Safar, skyrdrykkir og samlokur
„Við bjóðum uppá ýmsa safa, skyrdrykki og ferskar samlokur, auk þess erum við með flottan ísbar og svo hefðbundin grillmatseðil. Við reynum að koma til móts við þarfir og óskir viðskiptavinarins, erum til dæmis alltaf með drykk mánaðarins.
Mosfellsbakarí bakar fyrir okkur svokallaða hleifa sem er heilsubrauð og erum við með skemmtilegt úrval af heilsusamlegu áleggi t.d. heimagerðu pestói. Þetta hefur farið mjög vel af stað og fólk kemur aftur og aftur. Við höfum fengið virkilega góð viðbrögð, enda höfum við lagt mikinn metnað í þetta og er gaman að geta boðið upp á svona fjölbreytt úrval,“ segir Ásta.

Fersk engifer- og túrmerikskot
Vinsældir engifer- og túrmerikskota er alltaf að aukast, en það eru margir fastakúnnar sem koma á hverjum degi og fá sér orkuskot.
„Þessi skot eru algjör snilld. Það eru margir sem segjast finna mikinn mun á sér bæði hvað varðar orku og ýmsa kvilla sem eru að hrjá fólk. Við erum að fá fjölbreyttari kúnnahóp til okkar eftir breytingarnar, því það ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi,“ segir Ásta og bætir við að þau hafi í gegnum tíðina verið einstaklega heppin með starfsfólk sem gerir reksturinn bæði auðveldari og skemmtilegri.